Blessunarlega þurfti ekki að gera mikið áður en við gátum komið okkur fyrir. Það var nýbúið að skipta um glugga og gólfefni á flestum rýmum og rafmagn og dren var allt í góðu standi,“ segir Ingibjörg sem viðurkennir að hennar stíll sé ansi ríkjandi heima hjá þeim Árna. „Ætli hann sé ekki „mid-century“ undir áhrifum frá sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þá er ég með retrófílíu á háu stigi. Við erum ekkert forrík þannig að flest er fengið af nytjamörkuðum eða Facebook-grúppum. Mér finnst það líka huggulegra.“

Ingibjörg segir að flest húsgögn séu komin af nytjamörkuðum og úr Face­book-hópum enda þykir henni notalegast að vera innan um eldri muni.

Ekkert stórmál

Ingibjörg segist vera sú framkvæmdaglaða í sambandinu og almennt óhrædd við að taka af skarið varðandi breytingar eins og að mála veggi. „Ef ég fíla ekki litinn þá rúlla ég bara aftur yfir og það er ekkert stórmál. Árni tók þátt þegar við flísalögðum inni í eldhúsi en annars þá var það ég sem lakkaði skápana, málaði veggina, fúgaði milli flísanna, veggfóðraði inni í stofu og bjó til ljósakrónuna. Sem betur fer finnst honum stíllinn minn ekki ljótur því ég er ansi frek á að breyta til. Aðrar framkvæmdir eins og það að skipta um gólfefni krefjast auðvitað meiri umhugsunar, enda meiri vinna og dýrara og verra að gera þar mistök. Við gerðum ekki mikið fyrst þegar við fluttum inn heldur erum meira að „máta“ rýmin og taka okkur tíma í að ákveða hverju megi breyta smátt og smátt. Það er mun sniðugra fjárhagslega og svo er líka gaman að vera alltaf með eitthvert verkefni fram undan.“

Trúnaður við stílinn

Þegar kemur að því að velja hluti á heimilið þykir Ingibjörgu mikilvægt að fólk sé trútt eigin stíl og reiði sig ekki alfarið á ríkjandi tískustrauma hverju sinni. „Flísarnar í eldhúsinu okkar voru úr náttúrusteini, eflaust voða fínar flísar og líklega mun dýrari en tafl-flísarnar sem við settum á gólfið í staðinn. Við pældum alveg í því að setja stórar gráar stílhreinar flísar en ákváðum svo að velja frekar klassískar flísar sem okkur finnst flottari. Við sjáum ekki eftir því. Svo er eitt sem mér finnst vera pínu púkalegt og það er þegar fólk kaupir hluti í íbúðina sína bara til að fylla upp í rýmin. Þegar fólk setur inn mynd af hillu á Facebook-hópinn skreytum hús og spyr hvað það ætti að setja á hilluna. Af hverju varstu að kaupa hillu ef þú átt ekki dót til að setja á hana?“

Ýmislegt á döfinni

„Eldhúsið og stofan eru komin í nokkuð gott stand, en við þurftum lítið að gera í stofunni. Ég málaði ofninn og utanáliggjandi pípur gular til að poppa rýmið aðeins upp, setti veggfóður á einn vegg og svo föndraði ég „ljósakrónu“. Við skiptum um flísar í eldhúsinu, ég lakkaði innréttinguna hvíta og málaði eldhúsveggina bláa í sumar. Einnig fékk ég sendar handsmíðaðar höldur frá Rússlandi sem tók ekki nema um hálft ár að fá heim,“ segir Ingibjörg og hlær.

Í byrjun nóvember málaði Ingibjörg ganginn fagurbláan. „Það er verkefni sem ég hef ætlað mér lengi, en mig langar til að mála frönsku hurðina þar djúprauða. Planið var að mála ganginn í lit sem tónaði vel við bláa litinn í eldhúsinu. Þá voru einhvers konar blár eða grænn efst á baugi. Liturinn heitir Havbris og er Lady-málning úr Húsasmiðjunni.“

Það hafði lengi verið á döfinni að mála ganginn í stíl við bláa litinn í eldhúsinu. Þessi fallegi blái litur varð fyrir valinu. Það kemur skemmtilega út að leyfa vegglistanum að halda sér og eykur enn á retróútlitið.

Svefnherbergið er það herbergi sem hefur setið á hakanum. „Það er 20 fermetrar og furðulega langt í laginu. Þar þarf skipta um gólfefni og mig langar í „fishbone“ parket. Svo þarf að færa ofninn undir gluggann en núna er hann inni í horni, fjærstur gluggunum. Þá er planið að færa rúmið og lífga almennt upp á herbergið. Svo langar mig líka til að mála baðherbergið bleikt og það mun ég líklegast gera næst.“

Loðnir sambýlismenn

Ingibjörg og Árni deila íbúðinni með tveimur hvuttum, Rúfusi og Tuma. „Tumi er hvers manns hugljúfi og myndi helst velja að kúra allan daginn ef hann þyrfti ekki að fara út í göngutúra og sinna öðrum ómerkilegum verkefnum. Rúfus hins vegar er algjör vargur og fer úr hárum eins og enginn sé morgundagurinn. Hann leikur sér í tólf tíma á sólarhring, tætir leikföngin sín í tætlur og skilur eftir litla hnoðra víðs vegar um íbúðina. Þegar hann var ungur átti hann það til að naga húsgögn og hluti en blessunarlega óx hann upp úr því! Uppáhaldið hans voru tekkhúsgögn og nærbuxur úr óhreina tauinu.“

Þeir Rúfus og Tumi eru Ingibjörgu og Árna mjög kærir, þó svo Rúfus hafi á tímabili verið duglegur að stela nærbuxum úr óhreina tauinu.
Sigtryggur Ari

Stofan í uppáhaldi

Stofan hjá Ingibjörgu og Árna er augnayndi líkt og íbúðin öll en þar hefur Ingibjörg valið stórglæsilegt veggfóður á einn vegginn. „Veggfóðrið fékk ég í Esju Dekor og ég ætlaði aldeilis að setja það upp sjálf. Ég byrjaði að skera arkirnar til og gera mig tilbúna en var svo hrædd um að mér myndi mistakast. Þá fékk ég hann Steinþór dúkalagningamann í verkið og við tókum saman eina helgi í að henda þessu upp. Það þurfti sem sagt að setja undirlag vegna þess að húsið var byggt 1949 og steyptu veggirnir voru ekki rennisléttir. Sem betur fer fékkst hann til að hjálpa því þetta er óaðfinnanlega gert hjá honum.“

Veggfóðrið í stofunni frá Esju Dekor setur skemmtilegan blæ á heimilið með áhrifum frá flappertímabilinu. Að sögn Ingibjargar er þetta fínasti sjálfubakgrunnur.

Uppáhaldsstaður Ingibjargar er svo sófinn í stofunni. „Þar er nóg pláss fyrir mig og hundana mína Tuma og Rúfus að hafa það huggulegt saman á meðan ég stússast eitthvað í tölvunni að læra eða með bók. Svo er ég mikil eldhúskona og hef gaman af því að elda og baka. Sérstaklega eftir að við gerðum eldhúsið fínt.“

Ingibjörg elskar að dúlla sér í eldhúsinu við eldamennsku og bakstur, sérstaklega eftir að þau gerðu það svona fínt. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Ótrúleg orka og Flæði

Veggir og hillur íbúðarinnar eru nostursamlega skreytt fallegri list sem að sögn Ingibjargar kemur úr öllum áttum. „Flest verkin eru eftirprentanir af verkum íslensks listafólks og mörg verkanna eru eftir fólk sem ég þekki eða kannast við. Þar má nefna ljósmyndaverk eftir Antoníu Bergþórsdóttur og Írisi Leifsdóttur en ég á líka fallegan lítinn keramikvasa eftir Antoníu. Svo held ég mikið upp á mynd af pottaplöntum eftir Hrönn Gunnarsdóttur sem var með mér í heimspeki, collage eftirprent eftir Korkimon sem ég keypti á markaði í bílastæðahúsinu á Hverfisgötu, teikningu af alls konar kynjaköttum í veislu frá Sunnu Ben, stóra ljósmynd af kú á Kúbu keypti ég af listamanninum BlackStairs á sýningu sem vinkona mín Brynja Kristins hélt sumarið 2019. Sú sýning varð upphafið að Flæði sem er listakollektíf sem vinkonur mínar, Antonía Berg og Brynja settu á stofn ásamt Írisi og Dórotheu Olsen. Ég mæli svo innilega með því að fólk fylgist með því sem þær eru að gera, en Flæði er vettvangur fyrir alls konar listafólk til að sýna verkin sín og orkan í þessum konum er ótrúleg.“

Manninum er það eðlislegt að skreyfa umhverfi sitt og flest listaverkin á veggjunum eru eftirprentanir eftir íslenska listamenn og verk eftir vini hennar og kunningja.

Ingibjörg segist elska ljóðabækur og eins og mörg af hennar kynslóð er hún hrifin af plöntum. „Ég þekki mikið af kláru og flottu fólki sem hefur gefið út bæði ljóðabækur og smásagnasöfn. Mér þykir sérlega vænt um bækurnar og er með þær á sérstað inni í stofu. Svo erum við að reyna að koma upp smá vínylplötusafni en það gengur hægt. Það er svo auðvitað allt fullt af plöntum inni í íbúðinni og mér þykir mjög vænt um þær. Það er líka svo fallegt að gefa og þiggja afleggjara.“

Retróblætið teygir sig yfir í tæknina en þau Árni og Ingibjörg eru að koma sér upp vínylplötusafni. Bak við plöntuna má sjá eitt af hitaveiturörunum sem Ingibjörg málaði fagurgul.