Það er ástæða fyrir því að retínól hefur orðið gríðarlega vinsælt á undanförnum árum, en það er sérlega gagnlegt við að hjálpa húðinni að endurnýja sig, sem er forsenda fyrir unglegri húð. Tískuvefur Marie Claire birti nýlega grein þar sem farið var yfir kosti retínóls.

Retínól getur minnkað hrukkur og fínar línur í andlitinu og dregið úr myndun þeirra og gert litaraft fólks bjartara með því að fjarlægja gamlar frumur úr andlitinu og draga nýjar fram. Það getur líka komið jafnvægi á feita húð og komið í veg fyrir að svitaholur stíflist, svo bólur verði síður vandamál. Það getur einnig eytt dökkum blettum og örum eftir bólur. Retínól ýtir líka undir endurnýjun á kollagenbirgðum húðarinnar og eykur teygjanleika hennar, sem gefur frísklegra útlit.

„Þar til snemma á fertugsaldrinum endurnýja húðfrumur sig á um 28 daga fresti og búa sífellt til nýtt lag af húð, en um miðbik fertugsaldurs hægist á þessari endurnýjun og hún fer að gerast á 50-70 daga fresti,“ segir húðlæknirinn Mona Gohara, sem kennir við Yale-háskóla. Það er þessi hæga endurnýjun sem verður til þess að húðin í andlitinu þornar, missir lit og fær hrukkur. En retínól sökkvir sér djúpt í húðina og flýtir fyrir endurnýjuninni, þannig að líkaminn heldur áfram að framleiða nýja húð. Þar sem retínól virkar djúpt í húðinni getur það gjörbreytt litarhaftinu til lengri tíma litið.

En það er einn hængur á. Það þarf að nota retínól reglulega í að minnsta kosti þrjá mánuði áður en árangurinn kemur fram.

Finnið gerð sem hentar ykkur

Retínól er bara eitt af mörgum retínóíðum sem eru á markaðnum, en retínóíð eru A-vítamínsýrur. Það eru til nokkrar gerðir þeirra, sem eru missterkar. Retínól er næstveikasta gerðin en það eru líka til mun sterkari retínóíð og sumar gerðir er bara hægt að fá með lyfseðli. Þær virka misjafnlega en eftir því sem þær eru sterkari erta þær húðina meira.

Best er að fá húðlækni til að leiðbeina sér varðandi hvaða gerð er best að nota, því ólíkar gerðir henta ólíkri húð. En ef fólk er óvisst og vill ekki panta tíma hjá lækni er best að byrja annað hvort á að nota retínól eða veikustu útgáfuna af retínóíðum, retínýl palmítat (retinyl palmitate), og byrja þar. Gohara læknir mælir með að halda sig við eina gerð í heilt ár áður en íhugað er að nota aðra sterkari.

Sama hvaða gerð er notuð þá virka þær allar til lengri tíma litið og rannsóknir sýna að til langframa skila veikari útgáfur sama árangri og sterkari, þannig að það er óþarfi að hafa áhyggjur af því að nota of veika gerð.

Mikilvægt að nota efnið rétt

Það er mikilvægt að nota rétta gerð og að nota ekki of mikið í einu. Það er gott að byrja á einum litlum dropa (á stærð við baun) og nota hann einu sinni á viku fyrstu vikuna, svo tvisvar á viku í tvær vikur, þrisvar í viku í þrjár vikur og svo annað hvert kvöld eftir það. Retínól á að bera á hreina, þurra húð á kvöldin.

Ekki nota efni sem vinna á bólum, sýrur, sýrumaska eða aðrar vörur sem geta ert húðina á sama tíma og retínól, því það getur valdið ertingu og jafnvel bruna. Retínóíð gera húðina líka enn þá viðkvæmari fyrir sólarljósi, þannig að það er mjög mikilvægt að nota sólarvörn sem er að minnsta kosti SPF 30 á húðina á hverjum morgni, en húðlæknar mæla almennt með notkun sólarvarnar alla daga ársins.

Það er við því að búast að til að byrja með fari húðin í gegnum aðlögunarferli. Húðin getur orðið þurr, það getur orðið erting og það geta komið bólur á meðan húðin er að venjast nýja ástandinu. Til að vinna gegn því er mikilvægt að byrja ekki á sterku retínóíði og fara rólega af stað. En það er líka mjög mikilvægt að nota þessar vörur reglulega til að langtímaáhrifin skili sér.

Það er líka rétt að taka fram að retínól hentar ekki alveg öllum gerðum af húð og sumir fá slæm viðbrögð við notkun þess. Þess vegna er best að ráðfæra sig við húðlækni áður en notkun hefst.