Daglegur viðburður í lífum nemenda Háskóla Íslands undanfarin ár hefur verið að sjá og fylgjast með kisunni Rósalind rektor spóka sig á háskólasvæðinu. Svo þekkt var Rósalind að hún átti sitt eigið myllumerki á samfélagsmiðlum.

Rósalind var einstaklega gæf og þekkt fyrir að vera óhrædd við að leggja undir sig kennslustofur: uppi á borðum og við fætur. Margir hafa enda ítrekað lýst því yfir að Rósalind hreinlega eigi háskólann og þannig festist rektorstitillinn við kisu.

Jón Atli rektor, Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor, og Rósalind rektor á góðri stundu.
Mynd/Aðsend

Jón Atli, rektor mannfólksins við HÍ, var meyr þegar hann var beðinn um að rifja upp kynni sín af einni frægustu kisu landsins. „Kötturinn Rósalind auðgaði svo sannarlega lífið á háskólasvæðinu með návist sinni, sem einkenndist oftast af yfirvegun í bland við mátulegt æðruleysi. Eins og háttar til með háskólaborgara hafði hún dálæti á bókum og sótti í að vera innan um sem flestar þeirra. Þess vegna virtist á stundum sem hún væri hluti af öflugu starfsliði Bóksölunnar,“ segir Jón Atli og heldur áfram:

„Hún átti það líka oft til að leggjast upp á borðin hjá þeim sem voru á kafi í lærdómi á Háskólatorgi og ósjaldan ofan á fræðibækurnar, en þá lygndi hún bara aftur augunum og virtist sjúga í sig þekkinguna, svona eins og henni væri fullkunnugt um að þekkingin væri gjaldmiðill framtíðarinnar. “

Engin skúmaskot, skrifstofur eða borð voru Rósalind óviðkomandi.
Mynd/Twitter

Mætti á skrifstofuna til Jóns

Jón segir líklega ekki hafa farið fram hjá neinum að Rósalind hafi ekki ætlað sér neitt minna en rektorsembættið við Háskóla Íslands.

„Hún hafði ekki lengi vanið komur sínar á háskólasvæðið þegar hún birtist einn daginn í Aðalbyggingunni eins og hún hefði hér lyklavöld og tiplaði rakleiðis inn á skrifstofu mína og kom sér þar fyrir, eins og þetta væri nákvæmlega sá staður sem henni væri ætlaður. Rósalind var að sjálfsögðu afar vel tekið af okkur á rektorsskrifstofunni, eins og raunar var hátturinn um allar byggingar, því Rósalind var yfirleitt kærkominn gestur.“

Rósalind rektor hafði góðar gætur á konungsríki sínu á Háskólatorgi þar sem fáir efuðust um völd hennar.
Mynd/Twitter

Þakklát Rósalind

Þá segir Jón Atli að Rósalind hafi á sinn þátt tekið þátt í starfsemi skólans með ýmsum hætti. „Þegar við héldum háskóladaginn síðast var hún mætt í árdagsins roða á Háskólatorg til að taka þátt í undirbúningi. Þegar allt var að verða klárt og bæklingum hafði verið raðað snyrtilega á langborð við innganginn, stökk hún þangað upp og lagðist kylliflöt á borðið innan um bæklingana. Hún ætlaði ekki að missa af neinu og vildi vera öldungis viss um að þúsundir gesta fengju réttar leiðbeiningar um nám við hæfi,“ segir rektorinn um læðuna og kollega.

„En nú kemur hún því miður ekki oftar til okkar þessi fallega læða, hún Rósalind rektor, og munu margir sakna hennar, því hún lýsti oft upp daginn hérna á háskólasvæðinu. Við hugsum til hennar með hlýju og söknuði og líka með þakklæti.

Lokaðir gluggar stöðvuðu ekki háskólaköttinn sem virtist alltaf finna smugu.
Mynd/Twitter