Andrea Aldan Hauksdóttir er fædd og uppalin í miðbænum og hefur alltaf líkað vel við miðbæinn.
„Ég sleit barnsskónum á Barónsstígnum. Öll fjölskyldan býr líka miðsvæðis, sem er mjög þægilegt og ég lifi bíllausum lífsstíl. Það að geta labbað allt það helsta sem ég þarf að fara er yndislegt,“ segir Andrea Aldan sem er myndlistarmaður að mennt með árs fornám úr Myndlistaskólanum í Reykjavík og bakkalárgráðu í myndlist úr LHÍ.

Er ætlað að búa hér
„Það er frekar krúttleg saga á bak við hvernig ég endaði í þessari íbúð, en ég hef búið á sama stigagangi í þessu húsi í að verða sjö ár,“ segir Andrea.
Hún flutti inn í herbergi á þriðju hæð hússins þegar hún kom aftur heim frá London 2015 og bjó þar í þrjú ár uns hún keypti íbúð með fyrrverandi kærasta.
„Sambandið gekk ekki og ég fór út í skiptinám. Þegar ég kom heim snemma árs 2020 var gamla herbergið mitt á þriðju hæðinni laust til útleigu. Ári seinna ætlar leigusalinn á þriðju hæð að selja, en þá er risið laust og ég flyt hingað. Það fyrsta sem stakk mig þegar ég flutti inn í risið var gamli, ljóti gólfdúkurinn, sem mér fannst draga rýmið mikið niður. Ég hafði fengið leyfi til að mála hann en lagði ekki í það fyrr en ég keypti íbúðina sjálf.“
Það fór svo að eftir ár í risinu var íbúðin sett á sölu og Andrea keypti hana.
„Mér finnst eins og mér sé ætlað að búa hérna. Mér líður og hefur alltaf liðið mjög vel í þessu húsi. Mér finnst líka vera góður andi í húsinu og frábærir nágrannar. Þú finnur heldur ekki betri staðsetningu, finnst mér.“

Speglar birtuna
Íbúðin er skráð 47 fermetrar en þar sem hún er undir risi er gólfflöturinn mun stærri. Rýmið er vel skipulagt og eru þar þrjú svefnherbergi og stofa.
„Mér fannst íbúðin bjóða upp á mikla möguleika, en nú þegar eru til teikningar til að stækka eldhús og bæta við svölum. Draumurinn væri að bæta við hæð og vera með myndlistarstúdíó heima. Ef það fæst ekki leyfi fyrir því væri ég til í að bæta við kvistum. Íbúðin er lítil og það vantar svolítið birtu, sem er leiðinlegt fyrir plöntusjúka konu eins og mig. Ég hef sett spegla til móts við gluggana til að reyna að grípa og dreifa dagsbirtunni betur og stækka rýmið. Það hefur verið ferli að sjá hvers konar plöntur lifa af skammdegið og skort á sólarljósi.
Ég er mjög hrifin af hringlaga formum, en í stofunni eru fjórir hringlaga speglar. Tveir úr Góða hirðinum sem ég málaði, einn úr Ikea og fjórði er frá Rúmfatalagernum. Aftan á útidyrahurðinni eru líka speglaflísar úr Ikea sem mér finnst koma skemmtilega út.

Ég er hrifnust af gömlum húsgögnum með sál og hef fengið margt gefins á Facebook, málað og gert upp. Ég hef líka verslað mikið í Góða hirðinum og á nytjamörkuðum en er samt með einhver Ikea-húsgögn auðvitað. Á baðinu yfir klósettinu er gamall spegill sem ég fann í Góða hirðinum og pússaði og lakkaði bláan. Stelpa í Skreytum hús-grúppunni á Facebook kannaðist við hann, en hann er frá ömmu hennar og afa. Það fannst mér krúttlegt.
Uppáhaldsstaðurinn í íbúðinni er klárlega stofan. Mér finnst mjög gaman að bjóða fólki í mat og spil, og svo eyði ég mestum tíma þar. Sá hlutur sem setur svo punktinn yfir i-ið er ljósakrónan í miðri íbúðinni sem ég fékk í Lömpum í Hafnarfirði og lítur út eins og hálfgerður kolkrabbi,“ segir Andrea.

Páfuglinn í fjölskyldunni
Það fyrsta sem blasir við þegar komið er inn í íbúðina er einstök litagleði og óvæntar og heillandi litasamsetningar. Aukaherbergið leigir Andrea út til grískrar vinkonu sinnar, Jaris, sem kennir í Alþjóðaskólanum í Garðabæ. „Hitt herbergið er mjög lítið svo ég leigi það stundum út í styttri tíma. Síðast var starfsnemi frá Ítalíu í Kling og Bang sem bjó með okkur í nokkra mánuði.
Jaris treystir mér alfarið til að sjá um sameiginleg rými og hanna. Hún er mjög hrifin af fjólubláum sem ég var sjálf ekki fyrir. En nú er ég komin á fjólubláu línuna og endaði með að mála baðherbergið í fjólubláum og ljós-túrkís, sem er minn uppáhaldslitur. Svo búa hérna auðvitað læðurnar Nóra og Ylfa, þær stjórna öllu.“
Andrea var ekki alltaf svona litaglöð. „Upp úr tvítugu varð ég óhræddari við að fara eigin leiðir í persónulegum stíl í fatavali og umhverfi mínu. Æskuheimilið var voðalega gráleitt. Pabbi er verkfræðingur og mun íhaldssamari á liti en ég og mamma. Þau eru skilin í dag. Mamma er nokkuð litaglaðari en pabbi en hún er meira fyrir austurlensk áhrif, dekkri og jarðbundnari liti en ég. Ég er klárlega páfuglinn í fjölskyldunni,“ segir Andrea.


Málar yfir mistökin
Andrea hefur ferðast víða og segir ferðalögin hafa haft mikil áhrif á sinn stíl. „Ég heillast mikið af litasprengjunum í Suður-Ameríku, Marokkó og Mexíkó en ég fór með mömmu til Marokkó árið 2021. Það virðist hafa síast inn í undirvitundina því stuttu síðar var íbúðin mín orðin eins og regnboginn hafi komið í heimsókn og ælt yfir hana,“ segir Andrea og skellir upp úr.
„Ég fer samt í gegnum tímabil með liti. Fyrir nokkrum árum var ég með bláan á heilanum og íbúðin sem ég bjó í var hálfgert fiskabúr. Þegar mig vantaði meiri heilun og ró var ég sjúk í grænan. Þá var eldhúsið dökkgrænt og margir veggir mosagrænir. Þegar ég var að klára námið í Listaháskólanum var stanslaust verið að loka skólanum út af faraldrinum og við máttum ekki fara í stúdíóin okkar,“ segir Andrea. Á meðan fékk hún meðal annars útrás fyrir sköpunargleðina í því að hanna, prjóna og hekla peysur sem hana langar til að gera meira af í framtíðinni.
„Sköpunarþörfin fékk líka útrás í íbúðinni. Listnámið opnaði hugann á marga vegu og breytti því hvernig ég sé rými. Við erum í stöðugri þróun og göngum í gegnum ólík tímabil. Ekkert varir að eilífu og mistök eru oft besta gjöfin. Ef eitthvað virkar ekki er alltaf hægt að mála yfir það og byrja upp á nýtt,“ segir Andrea.
Hægt er að fylgjast með sköpun Andreu á Instagram: andreaaldanhauks.
