Amazon.co.uk hefur birt lista yfir mest seldu bóka­flokkana frá upp­hafi hjá Bret­lands­úti­búi sínu .co.uk og þar vekur helst at­hygli að harð­hausinn Jack Reacher trónir á toppnum. Út­gefandi bóka Angelu Mar­sons um Kim Stone er hæst­á­nægður með sínar konur í 4. sætinu enda fyrir ofan sjálfan Harry Potter sem þarf að gera sér 5. sætið að góðu.

Bækurnar um Reacher hafa notið stöðugra vin­sælda frá því sú fyrsta, Killing Floor, kom út 1997 og flokkurinn hefur þegar getið af sér tvær miðlungs­góðar bíó­myndir með Tom Cru­ise í titil­hlut­verkinu og feyki­vin­sæla þátta­röð sem sló ný­lega svo hressi­lega í gegn á Amazon Prime að þegar er byrjað að huga að ó­hjá­kvæmi­legu fram­haldi.

Sjálf­sagt hafa vin­sældir Reacher-þáttanna keyrt upp söluna á bókunum undan­farið en fyrsta þátta­röðin byggði nokkuð ná­kvæm­lega á Killing Floor, en fyrst og fremst þykir þó frammi­staða leikarans Alan Ritch­son hafa tryggt vin­sældirnar enda hefur hann, ó­líkt Cru­ise, líkams­burði til þess að standa undir per­sónu Reacher­s.

Angela Marsons ryður Kim Stone bókunum út við miklar vinsældir.

Kemur ekki á ó­vart

„Það kemur mér satt að segja ekki á ó­vart að bækurnar um Jack Reacher tróni á toppnum, enda verið ó­hemju­vin­sæll um langt skeið,“ segir Egill Örn Jóhanns­son, hjá For­laginu, sem hefur gefið Reacher út á ís­lensku um ára­bil.

„Að­dá­endum Reacher­s heldur á­fram að fjölga um allan heim og seljast bækurnar um her­lög­regluna fyrr­verandi í bíl­förmum í öllum heims­álfum og Ís­land er þar engin undan­tekning. Fyrir ör­fáum vikum gáfum við út nýjan Reacher á Ís­landi sem rauk strax í efstu sæti allra met­sölu­lista, líkt og verið hefur með nær allar bækurnar um Reacher sem For­lagið hefur gefið út.“

Breskar rann­sóknar­löggur eru frekar til fjörsins í efstu sætunum og þannig stimplar hinn „ó­trú­lega myndar­legi“ aðal­varð­stjóri Maxwell Ryan sig inn á eftir Reacher. Hann leysir saka­mál á­samt konunni sinni, henni Önnu, í því sem er lýst sem rómantískum spennu­tryllum í bóka­flokknum The DCI Ryan My­steries.

Egill Örn Jóhannsson hjá forlaginu segir það ekki koma á óvart að bækurnar um Jack Reacher tróni á toppnum, enda hafi hann verið óhemjuvinsæll um langt skeið.
Fréttablaðið/Anton

Kind­le-drottningin

Lou­ise Ross skrifar undir höfundar­nafninu LJ Ross. Hún er 37 ára og starfaði sem lög­maður áður en hún gerðist rit­höfundur og hefur frá 2015 skrifað á­tján bækur um Ryan sem hún á­kvað frá upp­hafi að gefa út sjálf og nýtti sér raf­bóka­formið til þess að sneiða hjá út­gef­endum og hefð­bundu ferli. Þetta virkaði svo vel að hún er kölluð Kind­le-drottningin og hefur selt meira á Amazon í Bret­landi en J.K. Rowling.

Bækur Peter James um rann­sóknar­lögguna Roy Grace eru næstar á lista, en Roy hefur látið að sér kveða í bresku saka­mála­þáttunum Grace þar sem John Simm fer með titil­hlut­verkið.

Hin mjög svo af­kasta­mikla Angela Mar­sons er í fjórða sæti með bækur sínar um rann­sóknar­lög­reglu­foringjann Kim Stone, sem njóta gríðar­legra vin­sælda víða um heim, ekki síst á Ís­landi.

LJ Ross hefur frá 2015 skrifað á­tján bækur um Ryan sem hún á­kvað frá upp­hafi að gefa út sjálf og nýtti sér raf­bóka­formið til þess að sneiða hjá út­gef­endum og hefð­bundu ferli.

Kim reykspólar af stað

„Angela Mar­sons var einn af fyrstu höfundum sem Drápa gaf út, og í raun fyrsta glæpa­serían okkar,“ segir Ás­mundur Helga­son, út­gefandi Kim Stone á Ís­landi. „Þrjár vin­konur okkar höfðu sam­band í sama mánuðinum og bentu allar á Angelu og að bækur hennar þyrftu að koma út á ís­lensku.

Síðan hafa komið út átta bækur hér á landi og Angela á trausta að­dá­endur á meðal ís­lenskra les­enda. Aðal­per­sóna bókanna, Kim Stone, er ekki þessi venju­legi þung­lyndi og drykk­felldi lög­reglu­þjónn heldur töffari dauðans sem þeysist um á mótor­hjólum en er kannski ekki sú flink­asta í mann­legum sam­skiptum.“

Ás­mundur bendir á að leið Mar­sons á toppinn hafi verið þyrnum stráð. „Henni gekk alls ekki vel að fá sína fyrstu bók gefna út. Hún skrifaði með­fram vinnu, sem hún svo missti og var farin að fá lánaða peninga hjá fjöl­skyldu sinni og búin að missa hús­næðið þegar sím­talið kom loksins.

Eftir ótal bréf frá út­gef­endum sem öll inni­héldu orðin „… en því miður … “ kom loks sím­talið sem breytti öllu. Ný­stofnað for­lag, Bookouture, bauð henni samning og síðan hafa komið út sau­tján bækur um Kim Stone.

Ásmundur Helgason, útgefandi Kim Stone á Íslandi, segir Marsons einn af fyrstu höfundunum sem útgáfufélagið Drápa gaf út.
Fréttablaðið/Eyþór

Harry og Harry

Kunnug­leg nöfn fylgja síðan í kjöl­far Harrys Potter en Kiddi klaufi með sínar dag­bækur er í 6. sæti og of­beldis­orgíur Geor­ge R. R. Martin, kenndar við A Song of Ice and Fire eða bara Game of Thrones í seinni tíð eftir að sjón­varps­þættirnir slógu í gegn.

Terry Pratchett kemur næstur með sinn Discworld-flokk og í 9. sæti er banda­ríski glæpa­sagna­kóngurinn Michael Connel­ly með bóka­flokkinn um rann­sóknar­lögguna Harry Bosch sem hann kynnti til leiks í The Black Echo 1992 en 24. bókin, Desert Star, kemur út í nóvember. Connel­ly er lík­legur til þess að herða róðurinn í bók­sölunni á næstu misserum en þættir byggðir annars vegar á Bosch-bókunum og Lincoln Lawyer hins vegar, eru að gera það gott á veitum Amazon og Net­flix.

Lestina rekur síðan sá forn­frægi rit­höfundur Jef­frey Archer með The Clifton Chronic­les en hann á að baki fjölda bóka, saka­feril og setu á breska þinginu.

Amazon greinir einnig sölu ein­stakra Harry Potter bóka þar sem Visku­steinninn er mest seldur, þá Leyni­klefinn og Eld­bikarinn en Fanginn frá Azka­ban rekur lestina. Og til þess að rétta hlut drengsins sem lifði af, þá er nokkur skörun milli lista Amazon í Bret­landi og Niel­sen BookS­can sem telst til að allar sjö Harry Potter bækurnar, auk Harry Potter og bölvunar barnsins og fleiri tengdar bækur hafi selst í 41,6 milljónum prentaðra ein­taka í Bret­landi.

Þá eru allar Harry Potter bækurnar sjö á listanum yfir tólf mest seldu bækur allra tíma, með saman­lagt 19,6 milljón ein­tök á móti 15,3 milljónum ein­taka af Reacher bókum.

Allar Harry Potter bækurnar sjö eru á listanum yfir tólf mest seldu bækur allra tíma.