Gjörningaklúbburinn opnar sýninguna Skilaboð að handan í Gallery Porti í dag á 147. fæðingarafmæli Ásgríms Jónssonar listmálara. Sýningin hverfist um upptöku af miðilsfundi sem þær Eirún Sigurðardóttir og Jóní Jónsdóttir áttu við Ásgrím árið 2019 á fyrrverandi heimili listamannsins að Bergstaðastræti en fundurinn var hluti af undirbúningi fyrir sýningu Gjörningaklúbbsins, Vatn og blóð, um líf og list Ásgríms Jónssonar í Listasafni Íslands.

„Við ákváðum að athuga hvort við yrðum einhvers meira vísari um Ásgrím, annað en það sem er sagt um hann í sögubókunum og sjá hvort að við myndum ná til hans í gegnum miðil,“ segja þær Eirún og Jóní.

Náðuð þið sambandi við Ásgrím?

„Fyrst var miðillinn ekki viss hvort þetta væri Ásgrímur eða ekki en svo kom hann bara mjög skýrt í gegn. Þessi miðill þekkir ekki neitt til Ásgríms og hún var ekki einu sinni á staðnum því hún var að miðla í gegnum Facetime.“

Miðillinn sem Gjörningaklúbburinn notaðist við heitir Brynja Magnúsdóttir Lyngdal en hún hefur áður unnið með þeim.

„Þetta er aðferð sem við köllum miðill-miðill, þegar við fáum svona miðil með okkur á frumstigi verkefnis. Venjulega erum við ekkert að sýna neinum þessar frumheimildir, þetta er bara eitt af verkfærunum í okkar verkfærakistu. En það varð okkur alveg ljóst þegar við fórum að skoða betur þennan fund og hlusta á hann í framhaldinu að við urðum að koma þessu á framfæri því þetta eru skilaboð sem eru mikilvæg,“ segja Eirún og Jóní.

Á sýningunni í Gallery Porti mun miðilsfundurinn hljóma af vínylplötu sem gefin verður út í 30 platna upplagi ásamt nýjum vatnslitaverkum sem Gjörningaklúbburinn vinnur fyrir hvert eintak af plötunni.

„Við erum búnar að gera þetta að einstökum verkum, platan er fjölfeldi en verkin eru samt einstök því við gerum vatnslistaverk utan um hverja plötu. Það var svona grunnstefið í myndlist Ásgríms, hann var mikill vatnslitameistari,“ segja þær.

Þá segjast Eirún og Jóní vera að vinna að nýju verki út frá miðilsfundi sem verður frumflutt á Myrkum músíkdögum 2024.

„Við erum að vinna að mjög stóru verkefni með Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem við förum meira inn í hlutamiðlun þar sem miðillinn okkar skoðar allt upp í fjögur hundruð ára gömul hljóðfæri.“

Gjörningaklúbburinn segist þó enn sem komið er ekki vera með neinar áætlanir um að ræða við fleiri látna listamenn. „Það er samt aldrei að vita, það væri alveg gaman að hitta nokkra aðra.“