Bandaríski leikarinn Ray Liotta er látinn, 67 ára að aldri. Í tilkynningu frá fjölmiðlafulltrúa Liotta segir að leikarinn hafi dáið í svefni í Dóminíska Lýðveldinu þar sem hann var staddur við tökur á kvikmyndinni Dangerous waters.

Ray Liotta var hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt í glæpamyndinni margrómuðu Goodfellas sem kom út árið 1990 og var leikstýrð af Martin Scorsese. Þar fór Liotta með hlutverk mafíósans Henry Hill sem leiðist út í glæpamennsku snemma á ævinni. Ásamt Liotta fóru stórleikararnir Robert De Niro og Joe Pesci með hlutverk í myndinni sem er að mörgum talinn vera klassík í kvikmyndasögunni.