Smjattpatti sér um mötuneytin fyrir starfsfólk og nemendur í Tækniskólanum og eru höfuðstöðvar Smjattpatta staðsettar á Skólavörðuholti.

Ingunn segir að á Skólavörðuholtinu séu vel yfir 1.000 manns sem flestir nýta sér mötuneyti Smjattpatta að einhverju leyti. „Við eldum hádegismat fyrir um 250 manns á dag. Það dreifist í þrjú húsnæði Tækniskólans: Skólavörðuholt, Háteigsveg og Hafnarfjörð. Að auki eldum við hádegismat fyrir kringum 90 nemendur og starfsfólk grunnskólans Nú í Hafnarfirði,“ segir Ingunn.

Dagurinn byrjar snemma hjá Ingunni, Heimi og sjö öðrum starfsmönnum sem undirbúa daginn með þeim í mötuneytum Tækniskólans. „Við byrjum snemma á að smyrja rúnstykki fyrir daginn og baka ýmist bakkelsi eins og pítsastykki, snúða og fleira. Ef tími gefst þá skvettum við í form eða bökum möffins líka.

Meginuppistaðan í hádeginu er heitur klassískur heimilismatur sem við undirbúum og eldum hér á Skólavörðuholtinu. Undirbúinn matur, óeldaður, er keyrður út til Háteigsvegar og Hafnarfjarðar, þar sem þau mötuneyti taka við og elda úr hráefninu sem er í matinn í það skiptið. Mötuneytin eru útbúin þannig að ofnar og eldavélar eru í þeim öllum. Einnig útbúum við salatbakka með ýmsu girnilegu,“ segir Ingunn.

Hefðbundinn og gómsætur heimilismatur

Heiti maturinn í hádeginu er að sögn Ingunnar aðallega heimilismatur. „Þá erum við með klassískan íslenskan mat eins og kjötsúpur, plokkfisk, gufusoðinn fisk og fleira. Einnig erum við með gúllassúpur, ýmsa pottrétti og fiskrétti. Þá erum við með ítalska rétti eins og lasagna eða spagettí bolognese, spænskan mat, indverskan og margt fleira. Við erum með svona sitt lítið af hverju og erum sífellt að bæta í uppskriftalistann hjá okkur. Við reynum að hafa fjölbreyttan matseðil og það er lítið um endurtekningar vikulega. Alla jafna erum við með fisk tvisvar sinnum í viku og þá reynum við að hafa fiskréttina ólíka.

Uppskriftirnar segir Ingunn að séu mistímafrekar. „Þetta fer allt eftir því hvernig réttirnir eru uppbyggðir. Undirbúningur á sumum réttum er mikill á meðan aðrir eru „pís of keik“. Þetta kemst bara upp í vana, maður er byrjaður að þekkja réttina og veit hve langan tíma hver þeirra tekur. Fyrst þegar ég var að byrja í bransanum, fyrir um tuttugu árum síðan, þá kom reynsluleysið inn hvað varðar uppskriftir og matreiðsluna. En svo kemur þetta bara með þjálfuninni og reynslan síast inn. Spagettí bolognese tekur til dæmis minnst tvo klukkutíma í undirbúningi. Það þarf að skera niður grænmetið, brúna hakkið, sjóða sósuna og pastað og fleira. Á meðan tekur gufusoðin ýsa enga stund. Við fáum hana til okkar roðlausa og beinhreinsaða. Þá þarf bara að raða henni á bakka og elda í ofninum á gufustillingu í max 8 mínútur.

Það þarf stóra potta og pönnur til að elda mat fyrir 200+ manns.

Ef maður er að steikja fisk eða kótilettur í raspi á pönnu, þá er maður fastur í því í þrjá klukkutíma miðað við að heima myndi það taka mun styttri tíma.

Handbrögðin eru þau sömu og þegar maður er að elda heima svo sem en svona magneldamennska tekur auðvitað mun lengri tíma. Ef maður er að steikja fisk eða kótilettur í raspi á pönnu, þá er maður fastur í því í þrjá klukkutíma miðað við að heima myndi það taka mun styttri tíma.“

Ingunn segir að Smjattpattar taki að sér veitingaþjónustu fyrir veislu og viðburði. „Það er nóg að gera hjá okkur, en við höfum nú alveg tekið að okkur ýmislegt, sérstaklega þegar það hittir rétt á hjá okkur. Það er um að gera að hafa samband við okkur í gegnum Facebook: Smjattpatti ehf. ef fólk er áhugasamt.“

Góðar græjur lykilatriði

Tækjaaðstaðan segir Ingunn að sé mjög góð í mötuneytinu í Tækniskólanum. „Við erum með góðar græjur hér í eldhúsinu. Við erum með uppþvottalínu, stóran gufusteikingarofn, 80 lítra steikarpönnu, fjögurra kubba helluborð og 40 lítra iðnaðarhrærivél þar sem við bökum brauðið okkar. En hún nýtist í margt annað eins og kartöflumús og ýmislegt góðgæti þegar tími gefst. Tækjakosturinn er passlegur fyrir þann fjölda sem við erum að sjá um en ef þetta væri stærri hópur, þá væri gaman að vinna með 20 skúffa ofn. En það er nú kannski fjarlægur draumur enda duga græjurnar hérna vel með góðu skipulagi,“ segir Ingunn, dreymin á svip.

40 lítra hrærivélin kemur sér vel þegar þarf að baka brauð fyrir stóran hóp eða hræra mikið magn af kartöflumús.

Aðspurð hvort hún myndi sjálf vilja vera með einhverjar af þessum kraftmiklu græjum heima hjá sér segir Ingunn að svo sé ekki. „Við eigum sambærilegar græjur heima nema auðvitað miklu minni. Uppþvottalínan, þó hún sé hraðvirk, þá er hún óttalega hávaðasöm. Ofninn okkar heima er með gufustillingu svo hann dugir okkur vel í alls konar matreiðslu. Steikarpannan sem við vinnum á hér í Tækniskólanum er náttúrulega mjög fín en við eigum góðan pott heima sem hentar vel fyrir alls konar pottrétti. Við erum náttúrulega bæði í þessu. Ég er matartæknir og Heimir er matreiðslumeistari. Við myndum aldrei sætta okkur við annað en góðar eldunargræjur heima.“

Yfirleitt endum við á að elda skammt sem dugir okkur í tvo til þrjá daga.

Eruð þið dugleg að elda heima líka eftir að hafa unnið í eldhúsinu í Tækniskólanum allan daginn?

„Við reynum að vera dugleg að elda heima á kvöldin, en það er oft spurning um það hver nennir á hverjum degi fyrir sig. Yfirleitt er það bóndinn sem tekur sig til og eldar. Okkur finnst þetta auðvitað ekki leiðinlegt. Það er ástæða fyrir því að við völdum okkur þetta starf.

En það fer vissulega eftir því hversu lúinn maður er eftir vinnudaginn, hvað maður nennir að elda. Oftast er það svo að við erum að elda eitthvað allt annað en það sem var í matinn í hádeginu. Það er nefnilega algengt að ég missi matarlystina rétt fyrir hádegismat, því ég er búin að vera að smakka matinn til allan daginn og anda að mér ilminum. Svo kemur að hádegispásunni okkar og þá langar mig ekkert í það sem er í matinn. Þá vil ég klárlega eitthvað allt annað á kvöldin.

Það er hins vegar alveg vonlaust fyrir okkur að elda fyrir þrjá. Við erum þrjú í heimili og það er þrautin þyngri að skala uppskriftirnar niður í þrjá skammta. Yfirleitt endum við á að elda skammt sem dugir okkur í tvo til þrjá daga,“ segir Ingunn og hlær.