Ása Bríet Brattaberg er 26 ára gömul og er frá Íslandi og Færeyjum. Hún útskrifaðist með sveinspróf í kjólasaumi frá Tækniskólanum í Reykjavík 2016 og fór þaðan í textíldeildina í Myndlistaskólanum í Reykjavík. „Mér fannst mikilvægt að hafa öðlast góða þekkingu á textíl áður en ég stefndi í fatahönnun. Ég hef farið í nokkur starfsnám á námsferlinum og lærði meðal annars hanskagerð hjá Thomasine Barnekow 2017, vann hjá fatahönnuðinum Anne Isabella í Berlín síðasta vor og svo vann ég hjá textíldeild Chanel í París í sex mánuði á síðasta ári, sem var alveg ógleymanleg upplifun og reynsla,“ segir Ása Bríet.

Rauði þráðurinn
Ása ólst upp umkringd handavinnu kvennanna í kringum sig og var snemma byrjuð að taka upp prjónana og prófa sig áfram á saumavélinni. „Núna, þegar ég vinn að lokalínunni minni er ég mikið að skoða uppruna textílaðferða, bæði í vefnaði, prjóni og útsaumi. Þráðurinn hefur alltaf verið mikilvægur í minni sköpun, hvort sem ég spinn mitt eigið garn úr ull frá ömmu og afa sem eru sauðfjárbændur, eða afmynda efni með því að taka ívaf úr uppistöðu þess.

Ég endurnýti gamlar flíkur sem minn efnivið í hönnun. Það gefur mér óútreiknanlega útkomu sem mér finnst bæði spennandi og krefjandi að vinna með. Í mínu sköpunarferli byrja ég oftast á því að vinna með textíl út frá ákveðinni hugmyndafræði sem ég hef. Þaðan fer ég svo að leika mér með prufurnar á líkamanum. Ég ímynda mér hvernig megi yfirfæra textílinn í flíkur og form og leyfi þá oft efninu að ráða ferðinni. Mér finnst mjög áhugavert að vinna á þessa leið, þar sem að textíllinn er mjög mikilvægur í minni hönnun og gefur hverri flík tækifæri á að vera einstök.“

Innblástur og áferðir
„Ég er alltaf með augun opin og forvitin fyrir öllu í kringum mig. Ég verð meira fyrir innblæstri af myndlist og tónlist heldur en fatahönnun.
Auðvitað er ég þó með puttann á púlsinum og fylgist með hvað er í gangi hverju sinni frá tískupöllunum í París og London. En ég skoða kannski meira hvað var að gerast í fatahönnun þegar stærstu meistararnir voru enn uppi. Ég fylgist mikið með David Altmejd og er mjög hrifin af þráðainnsetningum hans og andlitsskúlptúrar hans gefa mér alltaf einhverja ónotalega fallega tilfinningu. Jeanne Vicerial er magnaður þráðaskúlptúristi og svo er ég alveg að dýrka Cecile Feilchenfeldt, sem er ótrúlegur prjónahönnuður og gerir ótrúlegustu hluti í prjóni fyrir helstu tískuhús Parísar.
Hér heima er Sólveig Dóra að gera mjög spennandi hluti í fatahönnun og mig dreymir um listaverk eftir Loja Höskulds. Svo er Magnea alltaf að gera spennandi hluti með íslensku ullina.
Minn stíll myndi ég segja að sé áferðarmikill en ég er líka með auga fyrir nákvæmni. Ég er rythmísk með rómantískum blæ, hávær en samt svo hljóðlát. Áferð veitir mér innblástur og ég tengi áferð mjög mikið við tilfinningar. Ég fæ líka innblástur frá fólki sem ég sé í kringum mig, myndlist og tónlist. Að hlusta á tónlist og upplifa tónlist á klúbbi með fólki í kringum mig sem dansar í takt við tónlistina veitir mér mikinn innblástur og tengist aftur við þessar tilfinningar og áferð sem ég yfirfæri inn í taktfasta vinnu í textíl.“

Er einhver sérstakur áratugur í tískunni sem þú heillast af?
„Ég fæ ekki beint mikinn innblástur frá sérstökum áratug, en ætli ég sé ekki bara mest heilluð af því að í „gamla daga“ klæddi fólk sig meira upp hversdagslega og notaði sparifötin sín meira en nú.“
Hefur þú sjálf gaman af tísku og að klæða þig í fallegar flíkur?
„Já algjörlega, ég kaupi helst flíkur í „second hand“ búðum, nytjamörkuðum eða á mörkuðum þegar ég ferðast. Svo finnst mér mjög gaman að leika mér að setja saman mismunandi áferð í lögum. Svo var áramótaheitið mitt að leika mér meira með flíkurnar sem ég á, breyta þeim eða bara að stílísera þær öðruvísi en áður.“

Lokalínan er upphafið
Ása Bríet hefur verið að vinna í lokalínunni sinni síðan í ágúst í fyrra. „Það hafa nokkrir mánuðir farið í rannsóknarvinnu og þróun á textíl. Ég fékk nú á dögunum skólastyrk frá skartgripafyrirtækinu Swarovski sem er með prógramm fyrir unga upprennandi hönnuði sem vinna í kringum sjálfbærni í sinni hönnun. Það er mikill heiður að fá þennan skólastyrk og hjálpar mér mjög við gerð á lokalínunni minni.

Í mínu ferli hefur farið mikil rannsóknarvinna í að skoða hvernig hægt sé að vinna í iðnaði sem er mjög mengandi fyrir umhverfið, hvernig megi hanna á sjálfbærari máta og koma inn í þennan iðnað með það sjónarmið að það er hægt að gera betur. Að það sé hægt að koma fram einhverjum breytingum á því hvernig framleiðsluferli er hagað og varðandi ákvarðanir um uppruna efnis í hönnuninni og fólkið sem vinnur í tísku. Ég er núna að komast að lokaniðurstöðum með flíkurnar sem ég mun sýna sem hluta af lokalínunni minni. Það er mikil vinna fram undan þar sem flest allar flíkurnar krefjast mikillar handavinnu, en það er bara spennandi verkefni að takast á við. Það getur verið frekar yfirþyrmandi að hugsa til þess að loksins sé komið að því að gera lokalínuna sína eftir öll þessi ár sem ég hef verið að læra einhvers konar hönnun.
En ég reyni að minna mig á að þetta verður alls ekki „lokalínan“ mín, þetta er bara upphafið á einhverju frábæru sem ég mun takast á við eftir útskrift í vor,“ segir Ása Bríet.

