Fatahönnuðurinn Victoria Beckham er sögð vera í samningaviðræðum við sjónvarpsstöðina E! og fregnir herma að raunveruleikaþáttur um Beckham-fjölskylduna sé í bígerð.

Victoria Beckham er gift fyrrverandi fótboltakappanum David Beckham og saman eiga þau fjögur börn. Aðdáendur þeirra fá mögulega innsýn inn í daglegt líf þeirra ef raunveruleikaþáttur E! verður að veruleika.

Heimildarmaður breska slúðurblaðsins Daily Star leysti frá skjóðunni og sagði að Victoria vildi sýna fólki nýja hlið á sér.

Þess má geta að árið 2007 gerði sjónvarpsstöðin NBC tilraun til að framleiða raunveruleikaþætti um líf og tilveru Victoriu. Upphaflega átti að gefa út sex þætti undir yfirskriftinni Victoria Beckham: Coming to America en framleiðendur höfðu ekki úr nægu efni að moða og enduðu á að gefa út stutta heimildarmynd í staðinn. Myndin fékk slæma dóma.