Rafn segir þó að áhuginn hafi ekki kviknað af alvöru fyrr en hann kynntist kraftlyftingum. „Upprunalegur bakgrunnur minn er sófakartafla. Sem krakki prófaði ég nánast allar íþróttir sem hverfið bauð upp á, en fannst alveg hræðilega leiðinlegt í nánast öllum og beitti öllum brögðum til að skrópa og sleppa æfingum. Svo kynntist ég lyftingum í gegnum félaga minn. Eftir fyrstu æfinguna þá small einhver rofi í hausnum á mér og ég varð alveg heltekinn. Á stuttum tíma fór ég frá því að skrópa á öllum æfingum sem ég gat til að sitja í sófanum heima, horfa á línulega dagskrá og borða grillaðar samlokur, yfir í að verða ástfanginn af lyftingum sem þróuðust síðan yfir í kraftlyftingar.

Ég stundaði síðan kraftlyftingar alveg þangað til fyrir þremur árum en þá færðist fókusinn á önnur mið. Núna snýst hreyfingin meira um að viðhalda skrokknum og halda öllum strengjum vel stilltum,“ segir Rafn.

Áhugi á mannslíkamanum

Rafn hefur verið í einkaþjálfara- bransanum í hátt í tíu ár. „Mér finnst það ótrúlegt afrek miðað við það að meðalferill einkaþjálfara er yfirleitt ekki nema 1-3 ár. Þegar ég áttaði mig á því að ég gæti verið að fá greitt fyrir að kenna öðrum að stunda líkamsrækt, var ég snöggur að skrá mig í þjálfaranám. Þetta hefur síðan þróast hjá mér með árunum og áhugasviðið víkkað innan heilsugeirans. Ég fékk brennandi áhuga á mannslíkamanum og öllu sem við kemur heilsu og því að rækta raunverulegt heilbrigði. Þá byrjaði ég að kynna mér betur fræðin á bak við, um lífsstílsþætti eins og svefn, næringu og streitustjórnun. Í dag er ég að klára nám sem snýr að því að vinna á ýmsum lífsstílssjúkdómum með mataræði og öðrum lífsstílsþáttum,“ segir Rafn.

Rafn er með brennandi áhuga á mannslíkamanum og öllu sem tengist heilsu og heilbrigði.

360° Heilsa

Rafn býður upp á fjölbreytt líkamsræktar- og heilsuprógrömm undir yfirskriftinni 360° Heilsa. Einnig heldur hann úti forvitnilegu hlaðvarpi undir sama nafni þar sem hann ræðir við fróða einstaklinga um heilsu og líkamsrækt í víðum skilningi.

„360° Heilsa byggir á þeirri hugmyndafræði að raunverulegt heilbrigði sé margþætt. Það skiptir ekki máli þó svo mataræðið sé upp á tíu. Ef þú sefur alltaf illa verður heilsan ekki upp á marga fiska. Það er ekki hægt að uppskera raunverulegt heilbrigði án þess að huga að öllum þeim lífsstílsþáttum sem steypa grunninn. Ég brýt þetta niður í fjóra undirstöðuþætti sem eru hreyfing, næring, svefn og svo það sem ég kalla „jafnvægi“ en undir þann þátt falla streitustjórnun, félagsleg tengsl, tilgangur og slíkt.“

Þrjú ráð Rafns

Rafn segist hafa fundið fyrir aukinni aðsókn fólks í þjónustu sína í kjölfar COVID-19 faraldursins. „Ég átti ekki von á því en aðsóknin hefur verið gríðarlega góð í COVID. Það finnst mér frábært enda trúi ég að heilbrigður líkami sé besta leiðin til að takast á við þennan faraldur. Ég vil brýna fyrir öllum að það er aldrei of seint að bæta heilsuna. Lykillinn, að mínu mati, er helst að ætla sér ekki að sigra heiminn á einum degi. Með því að koma sér í svokallað „growth mindset“, eða uppbyggjandi hugarfar, þar sem þemað í lífinu er að verða sífellt betri útgáfa af sjálfum sér, betri í dag en í gær, þá byrja lítil skref fljótt að safnast upp. Ef ég ætti svo að gefa einhver ráð til að byrja að bæta heilsuna núna þá væri það aðallega þrennt:

  1. Reyndu að ná að minnsta kosti sjö klukkustunda svefni.
  2. Lágmarkaðu viðbættan sykur eftir fremsta megni og forðastu flestar fræolíur eða svokallaðar unnar grænmetisolíur eins og heitan eldinn.
  3. Og síðast en ekki síst, finndu þér áhugamál og ræktaðu það. Þá er mikill plús ef það nærir einhverja sköpunargáfu í leiðinni.

Hlaðvarp um heilsu

Í einum hlaðvarpsþætti 360° Heilsu ræðir Rafn við Ásdísi Rögnu Einarsdóttur grasalækni, um muninn á því að vera karl í líkamsrækt og að vera kona. „Við ræddum saman um heilsu kvenna og hvernig þær gætu þurft að huga öðruvísi að heilsunni en karlmenn. Þetta var virkilega áhugavert spjall. Við snertum á því hvernig hormónakerfi kvenna getur verið viðkvæmara en hjá körlum. Konur eru til dæmis töluvert líklegri til að þróa með sér skjaldkirtilsvandamál og sjálfsónæmissjúkdóma. Síðan er einnig margt sem bendir til þess að konur upp til hópa séu viðkvæmari fyrir skerðingu á kaloríum og þurfa því að passa sig meira þegar kemur að föstum og fleira. Ég held að ástæðan geti stafað að mörgu leyti af því að kvenlíkaminn er töluvert flóknari vél en karllíkaminn. Vél sem er hönnuð til að rækta líf inni í sér og strúktúrinn er því vandaðari og þar af leiðandi viðkvæmari fyrir áreiti.

Rafn heldur úti áhugaverðu hlaðvarpi sem kallast 360° Heilsa.

Í mínu starfi er munurinn á því að þjálfa konu og karla ekki svo mikill, sérstaklega þegar kemur að lyftingaþjálfun. Það fer að sjálfsögðu mest eftir markmiðum hvers og eins en æ fleiri konur sýna áhuga á kraftlyftingum þar sem fókusinn er á þungar lyftingar. Það sem ég hef helst í huga í þjálfun kvenna er að vanda æfingar kringum blæðingar. Þá geta liðamót verið lausari og líklegri til meiðsla og sumar konur eru líklegri til að vera með skerta virkni í djúpkviðvöðvum á þessum tíma. Þegar kemur að öðrum lífsstílsþáttum eins og mataræði og streitustjórnun eru líka ákveðnir hlutir sem ég hef bak við eyrað og fylgist betur með hjá konum.“

Annar þáttur fjallar um heilsuþjófana þrjá. „Þar vek ég athygli á þremur heilsuþjófum sem eru hlutir í okkar daglega lífi sem eru í raun að ræna okkur heilsunni. Heilsuþjófarnir eru þá ofneysla sykurs, unnar grænmetisolíur og streita. Þetta eru hlutir sem meira að segja sjóaðir heilsugúrúar klikka oft margir hverjir ómeðvitað á.“

Rafn er sérlega áhugasamur um málefni sem tengjast þarmaflórunni og í nýjasta þætti sínum ræðir hann við Birnu G. Ásbjörnsdóttur sérfræðing um þarmaflóru. „Hún sagði mér frá rannsóknum sem hún er að gera um þarmaflóruna í börnum og tengslum hennar við ADHD og geðræna kvilla. Það er ótrúlega merkilegt að sjá hvernig mataræði og lífsstíll hafa svo miklu víðtækari áhrif heldur en við gerum okkur grein fyrir. Þótt lyf séu oft góður og gildur kostur þá finnst mér nútímasamfélag orðið alltof háð þessu tóli sem í flestum tilfellum er frekar plástur en langtímalausn á rót vandans. Á móti kemur að máttur mataræðis, næringar og lífsstílsbreytinga hefur ekki fengið þá athygli sem þau verðskulda í baráttunni við nútíma lífsstílssjúkdóma og líkamlega og andlega kvilla.“