„Allir hérna eru bólusettir og prófaðir og allir eru með grímu. Öll leikhús á Broadway munu líta svona út í einhvern tíma og það er ókei,“ sagði söngvarinn og leikarinn Leslie Odom Jr. við upphaf Tony-verðlaunahátíðarinnar sem haldin var í Winter Garden Theatre í New York á sunnudaginn.

Margt var um manninn og fólk mætti til leiks í sínu fínasta pússi með grímur sem leyndu þó hvergi gleðinni sem skein úr nánast hverju andliti enda biðin eftir því að leikhúslífið færi að glæðast verið bæði löng og dauf.

Söngleikurinn Moulin Rouge! byggir á samnefndri kvikmynd Baz Luhrman frá 2001, sem aftur dró nafn sitt af goðsagnakenndum næturklúbbi í París, var frekur til fjörsins en sýningin hlaut tíu verðlaun. Meðal annars sem besti söngleikurinn og fyrir besta leikarann.

Verðlaunahátíðin fór fram rúmu ári á eftir áætlun og var að þessu sinni skipt í tvo tveggja klukkustunda langa viðburði þar sem flest verðlaun voru afhent í beinu streymi áður en aðalviðburðinum, tónleikum sem fögnuðu upprisu leikhússins, var sjónvarpað beint.

Andrew Lloyd-Webber, lét grímu óperudraugsins falla með vísun hann lóðbeint í eitt af sínum þekktari verkum. Stephen Daldry var verðlaunaður sem ebsti leikstjórinn fyrir The Inheritance.
Fréttablaðið/Getty
Kynnir kvöldsins, Leslie Odom Jr., og Josh Groban tóku lagið saman.
Fréttablaðið/Getty
Lindsay Heather Pearce sem margir kannast við úr sjónvarpsþáttunum Glee rifjar upp kunnuglega takta úr söngleiknum Wicked þar sem hún fór mikinn sem Vonda vesturnornin úr Galdrakarlinum í Oz.
Fréttablaðið/Getty
John Legend lét heldur betur að sér kveða á sviði Winter Garden Theatre.
Fréttablaðið/Getty
Dansarinn, söng- og leikkonan Annaleigh Ashford og leikarinn Jake Gyllenhaal lögðu nokkur orð í belg.
Fréttablaðið/Getty
Köngulóarmaðurinn fyrrverandi, Andrew Garfield, 80´s stjarnan Cyndi Lauper, sem sló í gegn með laginu um stelpur sem vilja bara skemmta sér, og barnabókahöfundurinn, söng- og leikkonan Bernadette Peters voru hress.