Rapparinn Juice Wrld, sem hét réttu nafni Jarad Ant­hony Higgins, lést í morgun að­eins 21 árs að aldri. Sam­kvæmt banda­ríska slúður­miðlinum TMZ lést rapparinn af völdum floga­kasts á flug­velli í Chi­cago í morgun. Sam­kvæmt heimildum BBC var rapparinn fluttur á sjúkra­hús þar sem hann var úr­skurðaður látinn. Dánarorsök liggur enn ekki fyrir.

Rísandi stjarna

Juice Wrld skaust upp á stjörnu­himininn með laginu Lucid Dreams sem kom út á síðasta ári og naut mikill vin­sælda um allan heim. Geð­heilsa, dauð­leiki og eitur­lyf voru al­geng þemu í lögum hans.

„Juice hafði djúp­stæð á­hrif á heiminn á þessum stutta tíma,“ sagði plötu­út­gáfa rapparans Interscope Records í til­kynningu. „Hann var blíð sál og sköpunar­gáfa hans var engum tak­mörkum sett, ein­stök manneskja sem elskaði að­dá­endur sína ofar öllu öðru.“