Bandaríski rapparinn Vic Mensa var handtekinn af tollvörðum á dögunum á flugvelli í Washington-borg. Handtakan átti sér stað eftir heimkomu hans frá Gana, en hann er grunaður um að hafa verið með ofskynjunarsveppi í förum sínum. TMZ greindi fyrst frá þessu.

Nú virðist hann vera laus úr haldi, en í gær birti hann færslu á Twitter þar sem hann sagði: „Ég er frjáls. Elska ykkur öll. Guð starfar á dularfulla vegu.“

Mensa hafði verið á ferðalagi um Afríku ásamt Chance the Rapper og öðrum tónlistarmönnum, en þar höfðu þeir meðal annars farið á fund með forseta Gana, Nana Akufo-Addo. Þeir birtu mynd af sér saman á samfélagsmiðlum undir yfirskriftinni „Frelsum æskuna“ einungis fáeinum dögum fyrir handtökuna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rapparinn kemst í kast við lögin, en í janúar í fyrra var hann handtekinn fyrir vörslu hnúajárna. Í því máli komst hann undan með því að borga 20.000 dollara tryggingu.

Vic Mensa átti að hita upp fyrir Justin Bieber í Kópavogi árið 2016, en hann afbókaði sig viku fyrir tónleikana. Síðan hefur frægarstjarna hans risið til muna, og líklegt að margir sjái eftir afbókun hans.