Perry Roberts er fæddur árið 1954 og býr og starfar í Antwerpen í Belgíu. List hans og hönnun hefur verið sýnd víða, í þremur heimsálfum, á þrjátíu einkasýningum og yfir sextíu samsýningum auk fjölda verka hans í opinberu rými.

Í Hverfisgalleríi sýnir hann nýleg verk á pappír og málverk á léreft og striga.

„Þetta eru ekki hefðbundin málverk, ég strekki ekki léreft og mála á það. Ég nota málningu og sauma oft saman í vél mismunandi gerðir af hráum striga og lérefti.“

Þessi aðferð hans gerir að verkum að líta má á verkin sem unnin eru á léreft í senn sem málverk, textílverk eða jafnvel veggteppi.

„Verkin virðast á yfirborðinu vera mjög einföld en þegar kemur að hönnuninni þá eru þau nokkuð flókin,“ segir hann.

„Ég er í eins konar rannsókn á aðferðum við að mála, sýni í formum það sem er venjulega falið í málverki. Ég hef mikinn áhuga á listasögu og því eru margs konar tilvísanir í verkum mínum, til dæmis til myndlistar endurreisnartímans.

Mér finnst þessar tilvísanir mikilvægar, þær skipta mig miklu máli. En ég vil að áhorfandinn túlki verkin á sinn átt, ég ætla ekki að segja honum hvað hann eigi að sjá.“ Svart og hvítt er áberandi í verkum hans.

„Ég hef gert litrík verk en ég er ekki litaglaður. Það á ekki við mig að nota grænt, rautt og blátt, þegar ég geri það lendi ég í alls kyns vandræðum. Það er áhugavert að ef maður takmarkar sig við svart og hvítt, þá kemst maður að því að til eru ótal gerðir af svörtu og sömuleiðis af hvítu. Þetta sést vel í verkum mínum.“

Þetta er í fyrsta sinn sem Roberts kemur hingað til lands. „Það að koma með verkin til Íslands hefur gert að verkum að ég sé þau í öðru samhengi en áður. Mér finnst eins og þau hafi öðlast aðra vídd. Ég hef fylgst með veðrabrigðunum á Íslandi og mér finnst ég koma auga á þau í myndum mínum.“

Sýning Perry Roberts í Hverfisgalleríi stendur til 6. nóvember.