Það hittist þannig á að ég var á síðasta ári í rannsóknarleyfi frá Listaháskólanum og hef dvalið í Brussel,“ byrjar Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson tónskáld þegar forvitnast er um afköst hans á veirutímum. „Eftir að hafa þurft að kenna á netinu í COVID-ástandinu mun ég halda því áfram á þessu ári frá Brussel,“ bætir hann við.

Skrifar kennslubók

Hróðmar Ingi kveðst vera að skrifa kennslubók fyrir háskóla í hljómfræði og greiningu tónlistar, þar sem hann fari í gegnum tímabilin barokk, klassík og rómantík. „Rannsóknarleyfið nýttist vel í að undirbúa bókina, lesa og endurnýja mig í fræðunum. Það hafa reyndar verið ótrúlega miklar rannsóknir í gangi á klassískri tónlist í Evrópu og Ameríku undanfarin tuttugu ár og því er afskaplega gefandi að vinna að þessu.“

Eins og alltaf þegar tekist er á við verkefni af þessum toga hefur vinnan við það orðið miklu meiri en reiknað var með í upphafi, að sögn Hróðmars Inga. „Nú fer allur minn tími í þá vinnu. Það hefur því ekki gefist mikill tími fyrir tónsmíðar en ég hef þó haldið mér aðeins við með samningu kórverka fyrir Kammerkór Norðurlands haustið 2019 og Kammerkór Skagafjarðar síðastliðið haust. Svo eru nokkur verk í farvatninu en ég veit ekki alveg hvenær ég kemst í að ljúka þeim.“

Gott samband við gamla nema

Hróðmar er spurður hvort hann hafi einhverjar njósnir um andagift annarra íslenskra tónskálda og hann svarar: „COVID-ástandið fer misjafnlega í fólk, það sem er skrýtnast við þetta tímabil er að það er ekki hægt að fá tónverkin flutt nema í undantekningartilfellum en það færist nú væntanlega til betri vegar þegar líður á árið.

Ég hef ekki náð að fylgjast vel með hvað einstök tónskáld hafa samið fyrir utan gamla nemendur sem ég er alltaf í góðu sambandi við og þar er ýmislegt áhugavert að gerast. Að vinna að tónsmíðum eða öðru skapandi á einangrunartímum sem þessum held ég að ætti að ganga vel. Hjá flestum er meiri ró og friður og miklu minna áreiti en venjulega. Það hentar mér allavega mjög vel.“