Einhver skærasta stjarna íslensks myndlistarlífs, Þrándur Þórarinsson, hefur brugðist við fjölda áskorana og málað mynd á sinn sérstaka hátt, innblásinn af alræmdri og afdrifaríkri samdrykkju sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klaustur bar síðla í nóvember.

„Ég þurfti lítið sem ekkert að hafa fyrir því að fella senuna að mínum myndheimi, þar sem þessi óviðkunnanlegi munnsöfnuður og andlegi vesældómur birtist okkur úr klaustri. Þetta féll eins og flís við rass, “ segir Þrándur í samtali við Fréttablaðið.

„Annars held ég þetta sé örugglega fyrst myndin sem ég mála vegna það sem kallað er „fjölda áskoranna.“ Fólk sem ég hef hitt að máli hefur mikið spurt hvort þetta atvik sé ekki efni í mynd. Ég gat ekki skorast undan þessu.“


Myndina nefnir Þrándur „Klausturfokk“ og hún verður til sýnis í Gallerí Port á Laugavegi 23 á morgun, laugardag. „Það hefur lengi skort íslenskt hugtak yfir „clusterfuck“ og ef Guð lofar festist „klausturfokk“ í málinu.

Þrándur sækir innblástur í ýmsar áttir, til dæmis í við­skiptalífið, þjóðsögur og dægurmenninguna eins og myndir hans af Nábrókar Bjarna, brennandi IKEA-geitinni, Krókódílamanni Megasar bera augljóst vitni. Að ógleymdri henni Grýlu.

Þrándur lærði hjá norska ólíkindatólinu og myndlistarmanninnum Odd Nerdrum og óhætt er að segja að áhrifa lærimeistarans séu áberandi í kynósa klaustursmyndinni af þingmönnunum sex.