Fimmta og að öllum líkindum síðasta mynd Sylvesters Stallone um drápsmaskínuna og kaldastríðskempuna John Rambó verður frumsýnd 20. september þegar sá gamli rís upp úr sínum helga steini, eftir að hafa haldið ró sinni frá 2008, og skreppur nú til Mexíkó og slátrar þar illum mansalsdólgum eins og honum einum er lagið.

Stallone var 36 ára þegar hann lék Rambó í þeirri stórgóðu spennumynd First Blood þegar hann mætti til leiks, laskaður á sálinni eftir Víetnam-stríðið, og lagði bandarískan smábæ í rúst eftir að hafa fengið óblíðar móttökur hjá lögreglunni.

Vinsældum First Blood var fylgt eftir 1985 með Rambo: First Blood Part II þar sem kappinn skrapp aftur til Víetnam, leiðrétti tapið í stríðinu þar og bjargaði bandarískum stríðsföngum. Í Rambo III frá 1988 hélt Rambó síðan í leiðangur til Afganistan þar sem hann gekk til liðs við Talibana og tók hressilega í lurginn á setuliði Sovétríkjanna þar í landi.

Rambó hefur komið víða við á löngum drápsferli og meðal annars sallað niður illmenni í Víetnam, Búrma og Afganistan.

Eftir þá herferð tók Stallone sér 20 ára frí frá Rambó en sneri aftur með látum 2008 og tók til hendinni í Búrma í fjórðu myndinni sem hét einfaldlega Rambo. Lengi er von á einum og nú ellefu árum síðar dregur Rambó fram hnífinn góða og stóru byssuna eina ferðina enn í Rambo: Last Blood.

Nú heldur hann í miklum hefndarhug af ættaróðalinu í Arizona fyrir landamærin til Mexíkó lokar væntanlega hringnum í eitt skipti fyrir öll með því að ganga milli bols og höfuðs á mannsalsdólgum og bjarga ungri komu sem er er honum kær úr skítugum klóm þeirra.

Nokkrir blóðdropar úr Rambó

Fyrsta myndin um Rambó var gerð eftir skáldsögunni First Blood eftir David Morrell frá árinu 1972. Í lok bókarinnar deyr Rambó enda gátu Morrell og Stallone síðar ekki séð fyrir hversu blóðuga slóð bókin myndi skilja eftir sig.

Í bókinni kom fornafn Rambó hvergi fram en í kvikmyndunum heitir hann John. John J. Rambo, meira að segja.

Stallone tók þátt í að skrifa handritin að öllum fimm Rambó-myndunum auk þess sem hann leikstýrði einnig fjórðu myndinni.

Fjöldinn allur af leikurum var orðaður við hlutverk Rambós en allir hættu við, þar á meðal stórstjörnur eins og Steve McQueen, Paul Newman, Clint Eastwood, Al Pacino, Robert De Niro, Nick Nolte, John Travolta, og Dustin Hoffman.

Stallone var að lokum boðið hlutverkið í kjölfar vinsælda fyrstu Rocky-myndarinnar. Hann var á báðum áttum vegna þess hversu margir höfðu hafnað hlutverkinu en sló til þegar honum bauðst að vera með í ráðum við handritsgerðina.

Ótrúlegt en satt drepur Rambó engan í fyrstu myndinni fyrir utan að ein vond og fordómafull lögga ferst með þyrlu sem Rambó bókstaflega grýtir bókstaflega niður. Hann leggur síðan engu að síður smábæ í rúst, sprengir bensínstöð í loft upp og sendir marga þungt haldna á Slysó.

Rambo-hnífurinn vígalegi var sérhannaður fyrir hetjuna en Stallone fékk hnífagerðarmanninn Jimmy Lile til að hanna hnífinn fræga.