Starfsmenn við atkvæðagreiðslu utankjörfundar á Akureyri ráku upp stór augu þegar leikarar úr barnasöngleiknum Benedikt búálfi mættu til að kjósa fyrr í dag. Árni Beinteinn Árnason leikur Benedikt búálf og Þórdís Björk Þorfinnsdóttirleikur Dídí mannabarn í uppsetningu Leikfélags Akureyrar á söngleiknum.

Þórdís Björk, klædd sem Dídí mannabarn, kaus einnig.
Aðsend mynd.

Þórdís Björk segir í samtali við Fréttablaðið að þau hafi alls ekki ætlað að kjósa í vinnufötunum.

„Við erum að gigga á leikskólum hér fyrir norðan. Ég og Árni búum bæði í Reykjavík og föttuðum það í fluginu í morgun að við gætum kannski ekki náð að kjósa á morgun. Við vorum ekkert búin að græja þetta í vikunni,“ segir hún.

„Það varð smá panikk þegar við föttuðum að við þurftum að klára þetta í dag. Við kíktum svo á kosningaskrifstofu sem sendir atkvæðin fyrir okkur.“

Þau Árni og Þórdís vildu alls ekki missa af því að kjósa.
Aðsend mynd.

Þórdís Björk segir að starfsmennirnir hafi rekið upp stór augu þegar Benedikt og Dídí mættu.

„Þau voru mjög hissa. Þau héldu að við værum að grínast í þeim. Við vorum bara mjög samviskusamlega að kjósa. Það vildi bara þannig til að við vorum í fullri múnderíngu.“