Rakel Mjöll Leifsdóttir varð á dögunum þriðja íslenska konan til komast á topp 20 listann yfir vinsælustu plöturnar í Bretlandi.

Rakel er forsprakki bresk-íslensku hljómsveitarinnar Dream Wife, sem gaf nýlega út plötuna „So when you gonna...“ og situr hún nú í 18. sæti á listanum.

Þá virðist platan vera gríðarlega vinsæl á Indie listum og komst þar í fyrsta sæti.

Dream Wife er skipuð þeim Rakel Mjöll, Alice Go og Bella Podpadec og hefur hljómsveitin vakið talsverða athygli frá því að hún var stofnuð í Brighton árið 2014.

Rakel fagnar þessum merka áfanga í færslu á samfélagsmiðlum og segir að hljómsveitin muni nýta ágóðann af netstreymi plötunnar til að styðja við samtökin Black Minds Matter og Gendered Intelligence.

Gagnrýnandi Guardian gaf plötunni þrjár stjörnur og sagði plötu hljómsveitarinnar skemmtilega og metnaðarfulla.