Bresk-ís­lenska hljóm­sveitin Dream Wife er ein níu ein­stak­linga og hljóm­sveita sem hita upp fyrir Rolling Stones í Hyde Park í kvöld. Rakel Leifs­dóttir er söng­kona hljóm­sveitarinnar og segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hún sé spennt fyrir kvöldinu og þakk­lát tæki­færinu.

„Við erum með bókunar­skrif­stofu sem bókaði þetta og það er oft þannig í tón­listar­heiminum að svona hlutir gerast með stuttum fyrir­vara,“ segir Rakel að­spurð um það hvernig það kom til að hljóm­sveitin var bókuð til að hita upp fyrir stór­sveitina.

„Það er svo oft þegar kemur að upp­hitunar­túrum að það er frekar lítill fyrir­vari. En þetta er skemmti­legt og þessi tón­listar­bransi er al­gjört lotterí.“
Dream Wife spilar að sögn Rakelar lista­há­skóla­pönk, bland af rokki, poppi og pönki. „Við syngjum mikið um jafn­réttis­mál og ég er spennt að sjá hvernig að­dá­endur Stones fíla okkur,“ segir hún.

Tón­leikarnir eru eins og fyrr segir í Hyde Park og eru hluti af Evrópu­túr hljóm­sveitarinnar, en á­ætlað er að þeir spili aftur í Hyde Park næsta sunnu­dag og svo halda þeir á­fram um Evrópu til Sví­þjóðar, Þýska­lands, Frakk­lands, Belgíu og fleiri landa.

Spenntust að sjá áhorfendurna

Með þeim í upp­hitun eru tón­listar­konan Phoebe Brid­gers, sem Rakel segir að hafi lengi verið í upp­á­haldi hjá henni, og svo hljóm­sveitin War on Drugs.

„Þetta er allt eigin­lega ein­hvers konar rokk. Ég er svaka­lega spennt að hlusta á hina. Þetta er mikill heiður. Við fáum að spila í 40 mínútur, sem er tíu mínútum meira en vana­lega í upp­hitun,“ segir Rakel.

Hún segist auk þess spennt að fá að upp­lifa há­tíðar­höld í Hyde Park en þangað hefur hún að­eins farið í lautar­ferðir en hún hefur nú verið bú­sett í London í nokkur ár.

„En ég er eigin­lega spenntust að sjá að­dá­endur. Það er verið að fagna því að þeir hafa verið starfandi í 60 ár og það verður gaman að sjá hvernig fólk verður á tón­leikunum að fagna því. Þetta er gríðar­lega merki­leg tala,“ segir Rakel og að til saman­burðar hafi hljóm­sveitin einu sinni hitað upp fyrir Liam Gallag­her.

„Það var mjög skemmti­legt en ég held að ég hafi að­eins séð svona þrjár konur í á­horf­enda­skaranum, og karlarnir litu eigin­lega allir út eins og Liam Gallag­her,“ segir Rakel og hlær.

Mamma og pabbi mæta

Hún segist vita til þess að margir Ís­lendingar verða á tón­leikunum en í London er stórt sam­fé­lag Ís­lendinga, auk þess sem borgin hefur um ára­bil verið einn vin­sælasti á­fanga­staður Ís­lendinga.

„Mamma og pabbi ætla að koma frá Ís­landi og ég held að það verði frá­bær upp­lifun að fara í Hyde Park að upp­lifa al­vöru rokk­tón­leika.“

Dream Wife er ekki eina ís­lenska hljóm­sveitin sem hefur hitað upp fyrir Rolling Stones því það hefur Kaleo gert nokkrum sinnum og mun gera aftur í júlí. Rakel segist glöð að vera komin í þann skemmti­lega hóp Ís­lendinga sem getur sett það á af­reks­skrána.