Ragnar Jónasson er í ítarlegu viðtali við The Times þar sem hann segir meðal annars frá því að hann sé að vinna að bók með Katrínu Jakobsdóttur, þau séu góðir vinir og fyrir utan að vera forsætisráðherra sé hún helsti sérfræðingur þjóðarinnar í íslenskum glæpasögum.

Blaðamaðurinn segir í inngangi að Ísland sé miklu öflugra á sviði glæpasagna en fólksfjöldinn segir til um. Arnaldur Indriðason og Yrsa Sigurðardóttir séu í hópi fremstu glæpasagnahöfunda heims og nú hafi Ragnar Jónasson bæst í hópinn og með nýjustu bók sinni, Þorpinu, sé hann orðinn ein mikilvægasta röddin í heimi alþjóðlegra glæpasagna.