Hvítidauði eftir Ragnar Jónasson fór beint í þriðja sæti þýska bóksölulistans sem birtur er í Der Spiegel í dag. Þar fylgir Ragnar eftir velgengni bóka sinna í fyrra en þá átti hann um tíma þrjár af mest seldu bókum Þýskalands.

Hvítidauði kom fyrst út á Íslandi árið 2019.

Bækur Ragnar hafa notið fádæma vinsælda á liðnum árum en þær hafa nú selst í yfir þremur milljónum eintaka og komið út í yfir 33 löndum.

Fyrir utan að hafa átt þrjár bækur á topp tíu í Þýskalandi komst Þorpið inn á topp tíu á metsölulista The Sunday Times, fyrst íslenskra bóka.

Í Hvítadauða deyja tveir starfsmenn á berklahæli rétt utan við Akureyri árið 1983 og er ljóst að andlát þeirra bar ekki að með eðlilegum hætti.

Ungur afbrotafræðingur vinnur að lokaritgerð um þetta undarlega mál árið 2012 og kemur þá ýmislegt óvænt í ljós um þessa skelfilegu atburði.

Samhliða rannsókninni þarf hann að takast á við erfiðleika í einkalífi sínu – erfiðleika sem þola illa dagsins ljós.