Sigur­vegari Rímna­flæði 2021 er Akur­eyringurinn Ragn­heiður Inga Matthías­dóttir. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Sam­fés.

Ragn­heiður eða Ragga Rix sem er 13 ára keppti fyrir hönd fé­lags­mið­stöðvarinnar Tróju og flutti hún lagið sitt „Mætt til leiks.“ Í öðru sæti var Þor­steinn Michael Guð­bjargar­son frá fé­lags­mið­stöðinni Þrumunni í Grinda­vík með lagið sitt „Lil Stony.“ Það var svo Geor­ge Ari De­vos, Kzoba úr fé­lags­mið­stöðinni Gleði­bankinn í Reykja­vík sem hlaut titilinn Efni­legasti rapparinn 2021.

Rímna­flæði, rapp­keppni unga fólksins sem fyrst var haldin í Mið­bergi árið 1999 er svo sannar­lega stökk­pallur fyrir unga og efni­lega rappara úr fé­lags­mið­stöðvum víðs­vegar að af landinu. Í til­kynningunni segir að ekki hafi komið til greina hjá Sam­fés að fresta eða af­lýsa við­burðinum vegna hertra sótt­varnar­að­gerða.

Því var á­kveðið að halda Rímna­flæði á netinu í sam­starfi við UngRúv og Domin­os sem styrkja við­burðinn. Þá er þeim þakkað sem horfðu á frá­bær at­riðið kepp­enda og tóku þátt í net­kosningunni. Hægt er að sjá við­tal við sigur­vegara frá síðast ári og öll at­riði kepp­enda á vef UngRúv.

Allir kepp­endur fá tæki­færi til að koma fram á Lands­móti Sam­fés sem haldið verður á Hvols­velli. Sigur­vegari Rímna­flæðis og Efni­legasti rapparinn koma fram á Sam­Festingnum í Laugar­dals­höll fös. 25. mars 2022.

Ragna Kjartans­dóttir, betur þekkt sem rapparinn Cell7, braut­ryðjandi rapp­senunnar og einn fleygasti rappari Ís­lands til­kynnti sigur­vegara Rímna­flæði og Efni­legasta rapparann 2021 á sam­fé­lags­miðlum Sam­fés í gær­kvöldi.