Ragn­hildur Þórðar­dóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli og er sál­­fræðingur og einka­­þjálfari, skrifar um líkams­­virðingu barna á Face­­book-síðu sinni. „Lítil eyru eru alltaf að hlusta. Lítil augu eru alltaf að horfa,“ skrifar hún og segir börn „stöðugt að taka inn upp­­­lýsingar til að byggja upp líkams­­í­­mynd sína.“

Þau börn sem búi við nei­kvæða líkams­í­mynd séu ó­öruggari en önnur og lík­legri til að glíma við kvíða, depurð og fé­lags­lega ein­angrun. Hún segist þekkja dæmi þess að allt að því sjö ára gömul börn séu orðin upp­tekin af út­liti sínu og farin að stunda æfingar „í fegurðar­skyni.“

Mikil­vægt að gæta sín í barna viður­vist

„Eitt er að stunda í­þróttir en það er allt annar hand­leggur þegar hreyfing 12 ára barna er gerð í fegrunar­bætandi til­gangi og spegla­æfingar stundaðar til hins ítrasta,“ skrifar Ragga og kemur með nokkrar á­bendingar til for­ráða­manna og annarra er þeir eiga í sam­skiptum við börn.

Að heilsa öðrum með því að hrósa út­liti þeirra kenni börnum að virði þeirra sé mælt í út­liti sem valdi því að þau verði of upp­tekin af því hvernig þau líta út og læri að sam­fé­lags­legt sam­þykki velti á út­liti.

At­huga­semdir um líkama barna gerir það að verkum að þau verði of upp­tekin af líkama og út­liti til að sækjast í slíkt hrós.

Nei­kvæð um­mæli um líkama annarra í viður­vist barna gerir þau hrædd við að fitna, þar sem það gæti leitt til slæms um­tals á öðrum heimilum.

Ragga kemur einnig með ráð um at­riði sem hafa ber í huga varðandi börn og líkams­virðingu.

„Sýndu börnum alls­konar líkama til að þau átti sig á fjöl­breyti­leikanum.“

„Ekki minnast einu orði á líkam­legt út­lit þegar þú talar um annað fólk í á­heyrn barna. Sýndu börnum alls­konar líkama til að þau átti sig á fjöl­breyti­leikanum. Út­skýrðu fyrir þeim filtera og fótó­sjopp á líkömum sem birtast þeim á netinu og í tíma­ritum,“ segir hún og að full­orðnir verði að vanda orð sín er börn eru við­stödd.

„Börn eiga að vera börn. Þau eiga ekki að hugsa um lögun skrokksins. Þau eiga ekki að telja kal­oríur. Þau eiga ekki að hamast bara til að geta sýnt six­pakk. Þau eiga ekki að velta fyrir sér líkams­fitu. Þau eiga ekki að fá þau skila­boð að vera dæmd út­frá út­litinu.“

Ragga lýkur pistlinum með þessum orðum:

Æskan á að vera á­hyggju­laus og sak­laus.

Sár á hnénu. Sippu­band. Snú snú. Skot­bolti. Sætir strákar. Snúður.

Feis­búkk. Fléttur. Fal­legar meyjar. Fót­bolti. Freknur. Franskar.