Raftónlistarkonan Sigrún Jónsdóttir mun syngja og leika eigin lög á stofutónleikum Gljúfrasteins á næsta sunnudag.

Sigrún er tónskáld, hljóðfæraleikari, söngvari og tónlistarkennari og hefur unnið með fjölda ólíkra tónlistarmanna og hljómsveita. Hún hefur frá árinu 2016 sent frá sér fjórar smáskífur sem sólótónlistarmaður. Tónleikarnir á sunnudag bera heitið Á mörkum þess tilraunakennda og hefðbundna, og eiga gestir eflaust von á framandi efni.

„Ég ætla að spila lög af plötunni minni Onælan sem ég gaf út 2018 í bland við nokkur glæný lög sem verða á komandi plötu sem er væntanleg á næstu mánuðum,“ segir Sigrún, sem lýsir tónlist sinni sem raftónlist með blandi af poppi og tilraunum. „Ég leik mér oft að því að gera tilraunakenndan hljóðheim og búa til einhvers konar stemningu í kringum viðfangsefnið hverju sinni.“

Sigrún tekur ekki fyrir möguleikann á að tónleikarnir kunni að taka óvænta stefnu.

„Það er aldrei að vita nema ég taki langspilið mitt með, tengi það við tölvuna og sjái hvað gerist,“ segir hún og hlær. „Hver veit nema ég geri smá tilraunir?“

Myndirðu þá lýsa tónlistinni þinni sem aðgengilegri tilraunatónlist eða sem óaðgengilegri popptónlist?

„Góð spurning! Ég held að óaðgengileg popptónlist sé frekar málið!“

Tónleikarnir hefjast klukkan 16 og miðasala fer fram við inngang safnsins. Stofutónleikar eru haldnir á Gljúfrasteini alla sunnudaga í sumar og hafa verið fastur liður á safninu frá árinu 2006.