Stórt skref í innleiðingu rafrænna skilríkja hér á landi var stigið árið 2007 þegar samningur var undirritaður milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Auðkennis fyrir hönd fjármálafyrirtækja, um útgáfu rafrænna skilríkja.

Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, segir tilgang rafrænna skilríkja vera að auðvelda rafræn samskipti. Þannig verði auðkenningin einfaldari og öruggari auk möguleika til fullgildrar undirritunar. „Á Íslandi geta aðilar notað sömu skilríkin til að auðkenna sig gagnvart flestum þjónustum á netinu. Notkun rafrænna undirritana er vaxandi og eru þær aðgengilegar hjá fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum með tilheyrandi þægindum og hagræði.“

Langur aðdragandi

Aðdragandinn að samningnum 2007 var nokkur segir Haraldur. „Árið 2001 voru sett lög um rafrænar undirskriftir, byggð á evrópskri tilskipun. Ríkið hóf þegar þróun verkefna, enda mat aðila að almenn útbreiðsla rafrænna skilríkja væri forsenda frekari framþróunar rafrænnar stjórnsýslu.“ Um svipað leyti var Auðkenni stofnað, meðal annars til að dreifa skilríkjum til viðskiptavina banka og sparisjóða. „Fljótlega hófust samskipti milli ríkisins og Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja um mögulegt samstarf um útbreiðslu skilríkja, sem fyrst var innsiglað með viljayfirlýsingu 2005 og loks samningi sem staðfesti áframhaldandi samstarf aðila árið 2007.“ Hann segir að markmið samningsins hafi verið að koma á og stuðla að, almennri dreifingu og notkun rafrænna skilríkja, bæði með uppbyggingu dreifilyklaskipulags og nýtingu á þekktum leiðum til dreifingar á rafrænum skilríkjum (debetkort). „Áætlað var að útbreiðsla yrði langt komin í lok árs 2008 en atburðir haustsins 2008 höfðu mikil áhrif á verkefnið. Fjölmargir aðilar komu að verkefninu og tók talsverðan tíma að byggja upp skipulagið. Árið 2014 var samstarf aðila ítrekað með undirritun viljayfirlýsingar milli ráðuneytisins og Samtaka fjármálafyrirtækja með það markmið að stórauka notkun rafrænna skilríkja á næstu árum og að þau yrðu megin auðkenningarleið fólks vegna margvíslegrar rafrænnar þjónustu og viðskipta á netinu.“

Hrunið tafði þróunina

Hann segir að þótt eðlilega hafi verið mismunandi skoðanir á því hvernig best væri að standa að svona verkefni hafi samstarf aðila verið talið farsælast fyrir íslenskt samfélag, enda nálgun okkar að mörgu leyti sambærileg öðrum Norðurlöndum og Eistlandi sem dæmi. „Flóknast var að byggja upp traustið og sannfæra almenning um tæknina.“

Ýmsar hindranir urðu á veginum sem stjórnendur verkefnisins sáu ekki fyrir segir Haraldur. „Áætlanir breyttust talsvert við bankahrunið árið 2008 sem hafði mikil áhrif á verkefnið, fjármögnun þess og forgangsröðun. Gert var ráð fyrir umtalsverðu framboði á þjónustu sem fólk og fyrirtæki gætu nýtt í samskiptum en það varð ekki raunin og var ábatinn af nýtingu skilríkjanna því fyrst um sinn mun minni en gert var ráð fyrir. Þetta varð til þess að margir sáu ekki ástæðu fyrir því að virkja skilríkin. Að nýta skilríki á kortum reyndist einnig flókið fyrir marga og kallaði á viðbótarbúnað notenda. Tilkoma snjalltækja þar sem ekki var hægt að nýta kort hjálpaði heldur ekki. Árið 2013 hófst samstarf við fjarskiptafyrirtæki þar sem SIM kort voru nýtt fyrir rafræn skilríki og hefur sú leið reynst mjög vel.“

Fjölmörg tækifæri

Aðspurður um þróunina næstu árin segir Haraldur að þörfin fyrir öruggari auðkenningu og undirritanir muni aukast og tæknin til þess að styðja það muni þróast í takt við þróun í heiminum. „Auðkenni er að koma á markað með Auðkennisapp sem hentar aðilum sem eru utan landsteinanna, ekki með íslensk símanúmer eða með tæki sem nýta eingöngu svokölluð eSIM. Það eru fjölmörg tækifæri fyrir rafræna þjónustu sem eykst á hverju ári. Á næstu árum munum við geta gert rafrænt alla hluti sem við gerum í dag í eigin persónu, með tilheyrandi þægindum og lækkun kostnaðar samfélagsins.“