Vertu úlfur eftir Unni Ösp Stefánsdóttur byggt á samnefndri bók Héðins Unnsteinssonar
****
Þjóðleikhúsið
Leikari: Björn Thors Leikstjóri: Unnur Ösp Stefánsdóttir Leikmynd og myndbandshönnun: Elín Hansdóttir Búningar: Filippía I. Elísdóttir Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson og Halldór Örn Óskarsson Dramatúrg: Hrafnhildur Hagalín
Tónlist í leiksýningu: Valgeir Sigurðsson
Hljóðhönnun: Elvar Geir Sævarsson
Þversagnir, athyglisbrestur, ofskynjanir og ofurnæmni. Himnarnir opnast, dýrin tala og lögin í útvarpinu fjalla einungis um þínar tilfinningar. Tilvistin er rafmögnuð upp á mörg þúsund volt en svo kemur að því að erfitt reynist að minnka strauminn. Hinum megin við örlyndið bíður hyldýpið. Myrkrið sem er svo skelfilegt að einstaklingar sem tróna á toppi heimsins engjast um í ofsafenginni maníunni, halda sem fastast í truflunina, frekar en að horfast í augu við tómið.
Nýlega frumsýndi Þjóðleikhúsið Vertu úlfur byggt á ritverkum Héðins Unnsteinssonar, aðallega samnefndri bók. Sýningin er þriðja leikstjórnarverkefni Unnar Aspar Stefánsdóttur en hún aðlagar einnig handritið fyrir leiksvið og Hrafnhildur Hagalín aðstoðar sem dramatúrg. Nálgun Unnar Aspar og túlkun á sögu Héðins er ansi merkileg. Hún leggur áherslu á þá innri og ytri óreiðu sem einkennir líf aðalpersónunnar þegar geðsveiflurnar eru í fullum krafti, en hún gleymir samt ekki að í miðpunkti sögunnar er manneskja af holdi og blóði en ekki sjúkdómur. Einn á sviðinu Á síðastliðnum árum hefur Unnur Ösp tekist á við ólík leikstjórnarverkefni, hún er sífellt að gera tilraunir og þróa sína fagurfræði.
Heildaryfirbragð sýningarinnar er áhrifamikið og virkilega vel unnið en hnökra er þó að finna. Uppbrotið undir lokin grefur til dæmis undan fínni undirbyggingu. Myndefnið minnir óneitanlega á frægt tónlistarmyndband með Christopher Walken í aðalhlutverki, en tónlistarmyndbandið fyrir sýninguna gaf Þjóðleikhúsið út fyrir fram þannig að áhrifin dvína. Gæta verður að því að markaðsvæðingin læðist ekki í leikhúsið. Í miðpunktinum, í auga stormsins, stendur Björn Thors. Hann er óneitanlega einn af færustu leikurum landsins, Vertu úlfur sannar það enn og aftur. Hér stendur hann einn á stóra sviðinu og er á við heilan leikhóp. Hann dregur áhorfendur til sín, talar við þá af mikilli tilfinningu og fær á sitt band.
Í orðum hans og gjörðum má finna stöðugar mótsagnir, hann segist vera í fínasta jafnvægi en augun glitra af örlyndi. Andlitið er sem mósaík af tilfinningasveiflum. Augu hans tindra af spennu og kappsemi en þegar líða tekur á afmyndast andlit hans af harmi, hann er andlega bugaður og berstrípaður. Slíkt er einungis á færi þeirra allra bestu. Myndlistarkonan Elín Hansdóttir snýr aftur í Þjóðleikhúsið eftir tæplega tíu ár. Hún vefur einsemd og óstöðugleika utan um Björn, eins konar efnislegt landslag hugans. Happafengur var fyrir verkið að fá pláss á Stóra sviðinu. Myndirnar sem Elín dregur upp verða þannig stærri og gleypa manninn sem upplifir sjálfan sig sem einn á móti öllum heiminum.
Tónlist Valgeirs Sigurðssonar marrar undir, dulúðug og á tímum ofsafengin blanda af þekktum tónverkum og frumsaminni tónlist. Tónlistarfólkið sem tekur einnig þátt í sýningunni er af dýrari gerðinni en Prins Póló, Emilíana Torrini og Markéta Irglová taka öll þátt. En þrátt fyrir ágæti laganna og frábæran texta beggja falla þau ekki nægilega vel inn í sýninguna eins og áður var nefnt. Þrátt fyrir miklar breytingar og framþróun í geðheilbrigðismálum eru samfélagslegir fordómar og kerfisbundið órétti enn þá staðreynd þegar kemur að málaflokknum. En hvernig er hægt að hlúa að þeim sem minna mega sín þegar heilbrigðiskerfið og sérstaklega geðheilbrigðissviðið er fjársvelt? Vertu úlfur er áhrifamikil áminning um þær sársaukafullu raunir sem fylgja geðsjúkdómum og það að þegar öllu er á botninn hvolft þá eigum við sem manneskjur meira sameiginlegt heldur en ekki.
NIÐURSTAÐA: Björn Thors fer á kostum í sýningu um hlykkjótt völundarhús hugans.