Vertu úlfur eftir Unni Ösp Stefáns­dóttur byggt á sam­nefndri bók Héðins Unn­steins­sonar
****

Þjóð­leik­húsið

Leikari: Björn Thors Leik­stjóri: Unnur Ösp Stefáns­dóttir Leik­mynd og mynd­bands­hönnun: Elín Hans­dóttir Búningar: Filippía I. Elís­dóttir Lýsing: Björn Berg­steinn Guð­munds­son og Hall­dór Örn Óskars­son Dramatúrg: Hrafn­hildur Haga­lín

Tón­list í leik­sýningu: Val­geir Sigurðs­son

Hljóð­hönnun: Elvar Geir Sæ­vars­son

Þver­sagnir, at­hyglis­brestur, of­skynjanir og ofur­næmni. Himnarnir opnast, dýrin tala og lögin í út­varpinu fjalla einungis um þínar til­finningar. Til­vistin er raf­mögnuð upp á mörg þúsund volt en svo kemur að því að erfitt reynist að minnka strauminn. Hinum megin við ör­lyndið bíður hyl­dýpið. Myrkrið sem er svo skelfi­legt að ein­staklingar sem tróna á toppi heimsins engjast um í ofsa­fenginni maníunni, halda sem fastast í truflunina, frekar en að horfast í augu við tómið.

Ný­lega frum­sýndi Þjóð­leik­húsið Vertu úlfur byggt á rit­verkum Héðins Unn­steins­sonar, aðal­lega sam­nefndri bók. Sýningin er þriðja leik­stjórnar­verk­efni Unnar Aspar Stefáns­dóttur en hún að­lagar einnig hand­ritið fyrir leik­svið og Hrafn­hildur Haga­lín að­stoðar sem dramatúrg. Nálgun Unnar Aspar og túlkun á sögu Héðins er ansi merki­leg. Hún leggur á­herslu á þá innri og ytri ó­reiðu sem ein­kennir líf aðal­per­sónunnar þegar geð­sveiflurnar eru í fullum krafti, en hún gleymir samt ekki að í mið­punkti sögunnar er manneskja af holdi og blóði en ekki sjúk­dómur. Einn á sviðinu Á síðast­liðnum árum hefur Unnur Ösp tekist á við ólík leik­stjórnar­verk­efni, hún er sí­fellt að gera til­raunir og þróa sína fagur­fræði.

Heildar­yfir­bragð sýningarinnar er á­hrifa­mikið og virki­lega vel unnið en hnökra er þó að finna. Upp­brotið undir lokin grefur til dæmis undan fínni undir­byggingu. Mynd­efnið minnir ó­neitan­lega á frægt tón­listar­mynd­band með Christop­her Wal­ken í aðal­hlut­verki, en tón­listar­mynd­bandið fyrir sýninguna gaf Þjóð­leik­húsið út fyrir fram þannig að á­hrifin dvína. Gæta verður að því að markaðs­væðingin læðist ekki í leik­húsið. Í mið­punktinum, í auga stormsins, stendur Björn Thors. Hann er ó­neitan­lega einn af færustu leikurum landsins, Vertu úlfur sannar það enn og aftur. Hér stendur hann einn á stóra sviðinu og er á við heilan leik­hóp. Hann dregur á­horf­endur til sín, talar við þá af mikilli til­finningu og fær á sitt band.

Í orðum hans og gjörðum má finna stöðugar mót­sagnir, hann segist vera í fínasta jafn­vægi en augun glitra af ör­lyndi. And­litið er sem mósaík af til­finninga­sveiflum. Augu hans tindra af spennu og kapp­semi en þegar líða tekur á af­myndast and­lit hans af harmi, hann er and­lega bugaður og ber­strípaður. Slíkt er einungis á færi þeirra allra bestu. Mynd­listar­konan Elín Hans­dóttir snýr aftur í Þjóð­leik­húsið eftir tæp­lega tíu ár. Hún vefur ein­semd og ó­stöðug­leika utan um Björn, eins konar efnis­legt lands­lag hugans. Happa­fengur var fyrir verkið að fá pláss á Stóra sviðinu. Myndirnar sem Elín dregur upp verða þannig stærri og gleypa manninn sem upp­lifir sjálfan sig sem einn á móti öllum heiminum.

Tón­list Val­geirs Sigurðs­sonar marrar undir, dul­úðug og á tímum ofsa­fengin blanda af þekktum tón­verkum og frum­saminni tón­list. Tón­listar­fólkið sem tekur einnig þátt í sýningunni er af dýrari gerðinni en Prins Póló, Emilíana Torrini og Markéta Irg­lová taka öll þátt. En þrátt fyrir á­gæti laganna og frá­bæran texta beggja falla þau ekki nægi­lega vel inn í sýninguna eins og áður var nefnt. Þrátt fyrir miklar breytingar og fram­þróun í geð­heil­brigðis­málum eru sam­fé­lags­legir for­dómar og kerfis­bundið ó­rétti enn þá stað­reynd þegar kemur að mála­flokknum. En hvernig er hægt að hlúa að þeim sem minna mega sín þegar heil­brigðis­kerfið og sér­stak­lega geð­heil­brigðis­sviðið er fjár­svelt? Vertu úlfur er á­hrifa­mikil á­minning um þær sárs­auka­fullu raunir sem fylgja geð­sjúk­dómum og það að þegar öllu er á botninn hvolft þá eigum við sem mann­eskjur meira sam­eigin­legt heldur en ekki.

NIÐURSTAÐA: Björn Thors fer á kostum í sýningu um hlykkjótt völundarhús hugans.