Hann er gangfær en það vantar í hann alternator en ef það er hlaðinn rafgeymir í honum þá er ekkert mál að setja hann í gang og keyra af stað,“ segir Leó Jóhannesson sem býður fimmtán ára gamlan strætisvagn til sölu í hópnum Brask og brall á Facebook.

„Þessi strætó er af gerðinni Iveco Irisbus árgerð 2005 og er keyrður 750.000 kílómetra,“ segir Leó og bætir við að þrjú ár eru síðan Strætó hætti að nota vagninn. „Þá var hann seldur sem geymsla á 600.000 þúsund og ég held að hann hafi skipt þrisvar um eigendur síðan honum var lagt þarna þar sem hann er núna og hefur staðið óhreyfður. Hann er bara búinn að ganga á milli í braski.“

Fimmtán ára gamall vagninn er ekki á leið, eins og þar stendur, en nýjum eiganda ættu þó að vera flestir vegir færir enda notkunarmöguleikarnir margvíslegir. Mynd/Leó

Oftast í varahluti

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segist ekki vita nákvæmlega hvaðan þessi tiltekni strætisvagn kemur. „Meginreglan er sú að við erum ekki að selja þá og þeir eru yfirleitt notaðir í varahluti þegar þeir eru komnir til ára sinna,“ segir Guðmundur og bætir við að stundum komi fyrir að verktakar sem keyra fyrir Strætó losi sig við vagna með því að selja þá.

„En það koma öðru hvoru beiðnir og við höfum áður selt einhverja gamla vagna ódýrt,“ segir Guðmundur og nefnir til dæmis gamlan Volvo sem endaði sem hótel við Esjurætur.

Beðið eftir kaupanda

Leó er Akureyringur og þar stendur vagninn við Goðanes, númerslaus, og bíður nýs eiganda, en Leó reiknar ekki með að sú bið verði löng í ljósi athyglinnar sem vagninn hefur vakið á Brask og brall.

„Númerin á honum liggja inni og það hvíla 90.000 krónur á honum. Ásett verð á svona græju er 450.000 en hann fæst á 200.000 með skuldinni og í þessu standi,“ segir Leó og bendir, eins og í auglýsingunni á Facebook, á að hann skoði öll skipti með opnum huga.

„Ég hef örugglega fengið 50-60 fyrirspurnir og þá aðallega skiptitilboð,“ segir Leó og bendir á að athugasemdahalinn við auglýsinguna sé orðinn langur og mikið um að fólk „taggi“ vini og kunningja sem það telur hafa áhuga á því að eignast strætisvagn.

Vagninn var áður nýttur sem geymsla.

Eignaðist vagninn óvænt

„Hann er ekki seldur enn þá en ég er með tvö mjög góð boð í hann sem ég er að skoða. Besta boðið sem ég er með er bíll sem er settur á 650 þúsund í hreinum skiptum.“

„Ég bara eiginlega veit ekki hvernig þetta skeði en allt í einu var þetta komið í hendurnar á mér,“ segir Leó þegar hann er spurður að því hvernig í ósköpunum hann eignaðist strætisvagn.

„Það var eiginlega bara óvart sko. Hann var náttúrlega seldur sem geymsla fyrir þremur árum og svo gekk hann á milli eigenda þangað til vinur minn eignaðist hann í viðskiptum og ég tók við honum þar og við eigum hann tveir saman.“

Leó segist ýmsu vanur í viðskiptum og að strætó sé ekkert endilega það undarlegasta sem rekið hafi á fjörur hans. „Ég hef verið í braskinu lengi. Byrjaði í bílum en svo er ég í öllu bara sem býðst og var að setja bát á sölu í fyrradag.

Ég hef mest gaman af undarlegum skiptum og hef til dæmis tekið hesta upp í bíla. Ég seldi þá til Þýskalands og svo fékk ég einu sinni röntgentæki upp í bíl en ég þorði aldrei að setja það í gang af því ég veit ekkert hvernig röntgen virkar.“

Næsta stopp?

Þótt það megi með góðum vilja og lítilli fyrirhöfn koma strætisvagninum í gang er eins líklegt að hann verði áfram kyrrstæður. „Þeir sem hafa sýnt honum áhuga sjá hann aðallega fyrir sér sem geymslu eða húsbíl. Það var líka komin hugmynd um að taka undan honum dekkin, koma fyrir á bitum á lóð, bárujárnsklæða hann og gera sumarbústað úr honum,“ segir Leó þegar talið berst að ýmsum notkunarmöguleikum vagnsins.

„Svo var enn einn sem langaði að setja hann fyrir utan sumarbústaðinn hjá sér sem fönduraðstöðu. Síðan kom helvíti gott komment við auglýsinguna um að maður ætti bara að taka hring á honum og hirða upp fólk í skýlum og fara með það í óvissuferð,“ segir Leó og hlær.