Sýningin Snúru­súpa verður opnuð í Ráð­húsi Reykja­víkur í dag á Vetrar­há­tíð klukkan 18.00. Um er að ræða sam­sýningu ungra lista­manna sem hafa allir vakið at­hygli fyrir verk sem nýta sér raf­magn á einn eða annan hátt.

„Grunn­hug­myndin er í rauninni að smala saman lista­mönnum í yngri kantinum sem eru að vinna með raf­magn með einum eða öðrum hætti. Það er alltaf ein­hver að gera slíkt en það hefur kannski svo­lítið verið um það að fólk hefur verið hvert í sínu horni, þannig að okkur langaði að taka saman ýmis sjónar­horn á þetta við­fangs­efni,“ segir Atli Bolla­son, einn lista­manna og skipu­leggj­enda sýningarinnar.

„Ég held að það hafi heppnast alveg þokka­lega vel því við erum með verk sem fara frá því að fjalla um fram­leiðslu raf­magns, vídeó sem er skotið við uppi­stöðu­lón í Mexíkó, út í verk sem eru að vinna hrein­lega með ljós og hljóð, til dæmis upp­tökur af raf­kerfum, og svo meira út í tölvu­tækni,“ bætir hann við.

Sjö listamenn taka þátt í Snúrusúpu, þau Andri Björgvinsson, Atli Bollason, Hákon Bragason, Patricia Carolina, Sean Patrick O’Brien, Una Sigtryggsdóttir og Þorsteinn Eyfjörð.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Inntak og efniviður

Að sögn Atla er raf­magn bæði við­fangs­efni og efni­viður sýningarinnar og þá ekki bara sem utan­að­komandi afl heldur einnig raf­magnið innra með okkur.

„Við erum líka að reyna að horfa á raf­magn ekki bara sem þetta hefð­bundna, ein­hverja vél sem þú stingur í sam­band, heldur erum við líka að hugsa um raf­magnið sem er innra með okkur og knýr heilann og taugarnar. Reyna að skoða þetta í svo­lítið víðara sam­hengi því raf­magnið varð náttúr­lega til löngu áður en mennirnir fóru að beisla það,“ segir hann.

Atli er sjálfur með tvö verk á Snúru­súpu sem byggja bæði á raf­magni á sinn hátt.

„Ég er með tvö verk sem hverfast bæði svo­lítið um minni og minningar, sem við köllum ekki fram nema fyrir til­stilli raf­magns. Það er bæði efni­viðurinn og um­fjöllunar­efnið. Í öðru verkinu er ég búinn að hakka sli­des-varpa og skipta perunni út fyrir strobe-ljós. Svo læt ég fundnar minningar, sem ég fann ein­hvern tíma á götu­markaði, leiftra sitt á hvað.“

Sjö lista­menn taka þátt í Snúru­súpu, þau Andri Björg­vins­son, Atli Bolla­son, Hákon Braga­son, Pat­ricia Carolina, Sean Pat­rick O’Brien, Una Sig­tryggs­dóttir og Þor­steinn Ey­fjörð. Sýningin fer fram í Tjarnar­sal Ráð­hússins og er opin 2. til 5. febrúar á milli klukkan 18.30 og 22.30.