Sýningin Snúrusúpa verður opnuð í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag á Vetrarhátíð klukkan 18.00. Um er að ræða samsýningu ungra listamanna sem hafa allir vakið athygli fyrir verk sem nýta sér rafmagn á einn eða annan hátt.
„Grunnhugmyndin er í rauninni að smala saman listamönnum í yngri kantinum sem eru að vinna með rafmagn með einum eða öðrum hætti. Það er alltaf einhver að gera slíkt en það hefur kannski svolítið verið um það að fólk hefur verið hvert í sínu horni, þannig að okkur langaði að taka saman ýmis sjónarhorn á þetta viðfangsefni,“ segir Atli Bollason, einn listamanna og skipuleggjenda sýningarinnar.
„Ég held að það hafi heppnast alveg þokkalega vel því við erum með verk sem fara frá því að fjalla um framleiðslu rafmagns, vídeó sem er skotið við uppistöðulón í Mexíkó, út í verk sem eru að vinna hreinlega með ljós og hljóð, til dæmis upptökur af rafkerfum, og svo meira út í tölvutækni,“ bætir hann við.

Inntak og efniviður
Að sögn Atla er rafmagn bæði viðfangsefni og efniviður sýningarinnar og þá ekki bara sem utanaðkomandi afl heldur einnig rafmagnið innra með okkur.
„Við erum líka að reyna að horfa á rafmagn ekki bara sem þetta hefðbundna, einhverja vél sem þú stingur í samband, heldur erum við líka að hugsa um rafmagnið sem er innra með okkur og knýr heilann og taugarnar. Reyna að skoða þetta í svolítið víðara samhengi því rafmagnið varð náttúrlega til löngu áður en mennirnir fóru að beisla það,“ segir hann.
Atli er sjálfur með tvö verk á Snúrusúpu sem byggja bæði á rafmagni á sinn hátt.
„Ég er með tvö verk sem hverfast bæði svolítið um minni og minningar, sem við köllum ekki fram nema fyrir tilstilli rafmagns. Það er bæði efniviðurinn og umfjöllunarefnið. Í öðru verkinu er ég búinn að hakka slides-varpa og skipta perunni út fyrir strobe-ljós. Svo læt ég fundnar minningar, sem ég fann einhvern tíma á götumarkaði, leiftra sitt á hvað.“
Sjö listamenn taka þátt í Snúrusúpu, þau Andri Björgvinsson, Atli Bollason, Hákon Bragason, Patricia Carolina, Sean Patrick O’Brien, Una Sigtryggsdóttir og Þorsteinn Eyfjörð. Sýningin fer fram í Tjarnarsal Ráðhússins og er opin 2. til 5. febrúar á milli klukkan 18.30 og 22.30.