****

The Man Standing Next

Leikstjórn: Min-ho Woo

Leikarar: Lee Byung-hyun, Lee Sung-min, Kwak Do-won

Suður-kóreskar kvikmyndir vekja reglulega og réttilega athygli á heimsvísu. Myndir á borð við Oldboy, The Wailing og nú síðast Parasite eru ekki einungis háklassa bíó heldur einnig kærkomið menningarlegt uppbrot með tilliti til söguuppbyggingar og andrúmslofts. Ein slík mynd kom út í fyrra en hefur því miður flogið undir ratsjána hjá mörgum.

Njósnir og vélabrögð

The Man Standing Next byggir á samnefndri bók þar sem fylgst er með síðustu fjörutíu dögum Park Chung-Hee, forseta Suður-Kóreu, áður en hann var ráðinn af dögum árið 1979. Persónur myndarinnar byggja allar á raunverulegum einstaklingum þótt nöfnum hafi verið breytt hér og þar, ef til vill af lagalegum ástæðum.

Myndin hefst í Washington DC þar sem fyrrverandi formaður KCIA (suður-kóresku leyniþjónustunnar), hefur flúið land og leysir frá skjóðunni um hinar ýmsu misgjörðir Parks forseta og spillingu innan ríkisstjórnar hans. Park Chung-Hee hafði á þeim tíma verið forseti í sextán ár og var vaxandi ólga meðal Suður-Kóreubúa vegna stjórnarfarsins í landinu.

Forsetinn felur Kim-Gyu-pyeong, núverandi formanni KCIA, að eiga við uppljóstrarann. Í rannsóknum sínum kemst Kim að ýmsu um forsetann og fer að efast um að hann hafi hagsmuni Suður-Kóreu í forgangi. Þegar forsetinn og vafasamir ráðgjafar hans beita aukinni hörku gegn almennum borgurum verður Kim ljóst hvað gera þurfi og við tekur háskaleg atburðarás uppfull af njósnum og vélabrögðum þar sem framtíð landsins er í húfi.

Lyginni líkust

Eitt það fyrsta sem margur áhorfandi hugsar líklega með sér þegar horft er á myndina er af hverju í ósköpunum maður hafi aldrei heyrt meira um þetta mál. Framvindan er á köflum lyginni líkust og hér er á ferðinni pólitískur njósnatryllir í hæsta gæðaflokki. Þrátt fyrir að myndin virðist vera stíluð á suður-kóreska áhorfendur er auðvelt að týna sér í söguþræðinum, þótt erfitt geti verið að koma auga á hvar verið sé að taka sér skáldaleyfi.

Einn helsti kostur myndarinnar er leikurinn, en þar skarar Lee Byung-hun fram úr í hlutverki sínu sem Kim og túlkun hans á togstreitunni á milli réttlætiskenndar og skyldu er frábær. Lee Sun-min gerir líka góða hluti í hlutverki sínu sem Park forseti og tekst jafnvel að vekja samúð í hlutverki sínu, sem ætti að virðast nær ómögulegt.

Þéttur stígandi

Þótt dágóður tími líði áður en hasarinn skellur á er það í góðu lagi þar sem andrúmsloftið er á köflum rafmagnað og stígandinn þéttur. Sögusviðið er alþjóðlegt og það er gaman að fylgjast með framúrskarandi sviðsmyndum víðs vegar um heim. Þá sakar ekki að hafa búningahönnun upp á tíu til að fanga andrúmsloft tímabilsins.