Ólafur segir að rafíþróttir hafi í raun verið til á Íslandi í langan tíma og hafi verið þekktar undir ýmsum hugtökum.
„Skjálfti var til dæmis í Digranesi 2004 og svo kom HRingurinn. En þetta hafa verið skammlífar tilraunir sem voru byggðar upp fyrir utan skipulagt félagsstarf. Á þessum tímapunkti var þetta eiginlega bara þjónusta fyrir tölvuleikjaspilara,“ útskýrir hann.

Þegar Ólafur flutti út og fór að vinna fyrir fyrirtæki sem heitir Riot Games þá kynntist hann raf­íþróttum á heimsvísu.
„Ég fór í allar heimsálfur nema til Suðurskautslandsins og upplifði rafíþróttaviðburði. Það skipti engu máli hvert maður fór. Það var alltaf það sama upp á teningnum. Þarna var stór hópur af fólki sem hafði það mikinn áhuga á þessu viðfangsefni að það var tilbúið að ferðast, koma saman og leggja á sig alls konar hluti til að upplifa og taka þátt í þessu áhugamáli,“ segir hann.

„Þá fékk ég ákveðna sýn. Ég hugsaði: Ef fólk er tilbúið að gera þetta þá er það örugglega tilbúið að gera margt fleira. Eins og til dæmis að taka þátt í skipulögðu hópastarfi í kringum rafíþróttir. Það var eitthvað sem mér fannst vanta mjög mikið og myndi smellpassa á Íslandi.“

Þegar Ólafur flutti aftur til Íslands hitti hann Melínu Kolku, sem er núverandi varaformaður RÍSÍ, Ólaf Nils Sigurðsson, Hafliða Örn Ólafsson og fleira áhugafólk um tölvuleiki og bar undir þau hugmyndina um stofnun Rafíþróttasamtakanna.

„Ég sagði þeim að mig langaði að gera þetta af svolítilli alvöru. Mig langaði að stofna rafíþróttasamtök. Ég kynnti fyrir þeim mína sýn og hvernig mig langaði að gera þetta og þeim leist öllum rosalega vel á hugmyndina. Við stofnuðum svo Rafíþróttasamtök Íslands, RÍSÍ. Við héldum kynningarfund í nóvember 2018 og það er þá sem við komum fram með hugtakið rafíþróttir og það fær formlega skilgreiningu“ upplýsir Ólafur.

„Rafíþróttir sameinar öll þau verkefni sem höfðu áður verið á Íslandi í kringum þetta áhugamál, undir nýju hugtaki sem er séríslenskt með skilgreinda merkingu. Þetta flakk á milli hugtaka: Er þetta e-sport, eru þetta tölvuleikir, eru þetta rafíþróttir? Það hætti að mestu. Allir voru tilbúnir að segja: Þetta heita rafíþróttir og svona á þetta að vera á Íslandi.“

Frá úrslitum Len­ovo- deildarinnar í Háskólabíó. MYND/AÐSEND


Einblína á fræðslu

Frá stofnun Rafíþróttasamtaka Íslands hefur verið unnið mikið kynningarstarf í sjálfboðavinnu hjá öllum sem að þeim koma.

„Við erum búin að einblína mikið á fræðsluhliðina. Við höfum verið að kynna þetta fyrir öðrum en bara tölvuleikjaspilurum. Til dæmis að útskýra fyrir foreldrum, kennurum, stjórnvöldum og stjórnendum innan íþróttafélaga hvað þetta áhugamál þýðir í raun fyrir þennan hóp. Hvað þetta er mikilvægt fyrir hann og hvernig er hægt að nýta áhugann á tölvuleikjum til að gera jákvæðar breytingar í lífinu og ýta undir félagsleg tengsl og þroska,“ segir Ólafur.

„Það má í raun segja að allt sem RÍSÍ hefur gert á síðustu árum snúi að því að byggja upp þetta umhverfi fyrir tölvuleikjaspilara. Það er þörf á öllum föstum umhverfisins. Það er ekki nóg fyrir okkur að vera bara með barna- og unglingastarf en enga meistaraflokka eða keppni á háu getustigi á Íslandi. Þá ertu ekki að vinna þig að neinu takmarki í barna- og unglingastarfinu. Það er heldur ekki nóg fyrir okkur að vera bara með meistaraflokk en ekkert barna- og unglingastarf, því þá eru ungmenni á Íslandi að lenda í sama veseni og ungmenni úti um allan heim; að þurfa að finna út úr því sjálf hvernig þau eiga að æfa sig og verða atvinnumenn í einhverju, þar sem gífurleg samkeppni er á heimsvísu í að komast inn í atvinnumennsku.“

80 lið keppa í 10 deildum í mismunandi styrkleikaflokkum í Vodafone-deild RÍSÍ í leiknum CS:GO.

Ólafur segir að með Rafíþróttasamtökunum hafi tekist að búa til umhverfi á Íslandi sem tekur utan um alla óháð getustigi og tryggir að fólk fái sem bestar aðstæður á Íslandi til að stunda áhugamálið sitt.

„Þetta hefur gengið framar vonum. Núna erum við með hátt í 1.500 keppendur sem keppa vikulega í ýmsum leikjum og keppnum á vegum RÍSÍ. Iðkendur landsins eru komnir yfir 600 og það eru komnar yfir 20 rafíþróttadeildir hjá ungmenna- og íþróttafélögum um allt land,“ segir hann.

„Það eru líka fleiri skipuleggjendur farnir að halda mót þar sem þátttaka er mikil. Það er allt stappfullt í öllum rafíþróttadeildum landsins og biðlistar hvar sem þú drepur niður fæti. Svo er Riot Games að koma með næststærsta rafíþróttaviðburð heims til landsins seinna á árinu. Það er allt í allt þvílíkur árangur sem hefur náðst á Íslandi á stuttum tíma.“

Viðbrögðin komu á óvart

Ólafur segir að hann hafi búist við því að erfiðara yrði að fá skilning á mikilvægi þess að stofna sérstök samtök fyrir rafíþróttir.

„Það kom á óvart, en ég held að fólk hafi strax upplifað hvað það skipti miklu máli fyrir okkur að eiga hugtak á Íslandi sem gerir okkur kleift að tala um þetta áhugamál á ákveðnum forsendum. Allt í einu var ekki bara talað um tölvuleiki og að þeir væru slæmir. Allt í einu gastu farið að tala um þetta út frá hugtaki rafíþrótta. Það var hægt að segja við yngri spilara: Ætlarðu að reyna að verða atvinnumaður í rafíþróttum? Og krakkarnir spurðu: Hvað er það? Er hægt að vera atvinnumaður? Þá var hægt að svara: Já, ef þú æfir þig og hugsar um líkamann og andlegu hliðina og leggur þig fram, þá geturðu orðið atvinnumaður. Bara þessi breyting á orðræðunni í kringum tölvuleiki er orðinn stærsti áhrifaþátturinn í því hvað rafíþróttir hafa skotið sér víða langt, tel ég,“ segir Ólafur og bætir að lokum við:

Óháð því hvort barnið þitt er í rafíþróttum eða ekki og á hvaða aldri það er, þá er það að eiga hugtakið rafíþróttir og að það standi fyrir heilbrigða iðkun á tölvuleikja-áhugamálinu, mikil búbót fyrir íslenska þjóð.“