Kim Chi var fyrsti kóresk-bandaríski þátttakandinn í RuPaul’s Drag Race, auk þess sem hún var fyrsta kóresk-bandaríska dragdrottningin til þess að koma fram í bandarísku ríkissjónvarpi. Kim Chi er dragdrottningarnafn Sang-Young Shin, sem fæddist 8. ágúst í Bandaríkjunum á því herrans ári 1987 og ólst upp í Suður-Kóreu. Shin lærði grafíska hönnun í háskóla og starfaði eftir það sem listrænn stjórnandi, auk þess sem hann kannaði heim skúlptúra, tískuhönnunar og málverks. Það býr greinilega sterkur listagrunnur í okkar drottningu.

Sang-Young Shin byrjaði að koma fram sem dragdrottning um 2012. Upphaflegt dragdrottningarnafn Shin var víst Jizzney Princess, en stuttu síðar breytti hún því í Kim Chi, eftir gómsætu kóresku sýrðu og gerjuðu meðlæti er nefnist kimchi. Shin útskýrir fagurfræði Kim Chi svo: „Kim Chi er lifandi teiknimyndapersóna og tískustíl hennar má lýsa sem rafefldri blúndudúllu. Ára mín samanstendur af útfjólubláu ljósi sem spýtir glimmeri. Ég elska allt sem er krúttlegt, skemmtilegt, skrítið og framandi.“

Kim Chi skaust hratt upp á stjörnuhimininn árið 2016 eftir hún tók þátt í áttundu þáttaröð raunveruleikaþáttarins RuPauls’s Drag Race, þar sem hún kom fram ásamt tólf öðrum hæfileikaríkum dragdrottningum. Kim Chi er yfir tveir metrar á hæð í hælum, og lærði víst ekki að ganga á hælum fyrr en eftir keppnina. Kim Chi var, eins og margir vita, einn af þremur lokakeppendum, ásamt Naomi Smalls og Bob the Drag Queen, en sú síðasttalda hreppti titilinn í lok þáttaraðarinnar.

Í viðtali við W magazine segir Kim Chi að stærsti misskilningurinn sem fólk sé haldið um dragmenningu sé sá að þar séu karlar að reyna að líta út eins og konur. „Ég held að Bob the Drag Queen hafi orðað þetta best þegar hún sagði að tilgangur drags væri að gera línuna á milli kynjanna óskýrari og að skapa list.“ Þar segir Kim Chi einnig að mikilvægasti þátturinn í allri förðun sé alltaf augabrúnirnar, hvort sem um er að ræða dragförðun eða hefðbundna förðun. Viðtalið var tekið í lok keppninnar árið 2016, þegar Kim Chi hafði komið fram undir dragnafninu í fjögur ár, og uppljóstrar dragdrottningin þar að móðir hennar viti enn ekki um dragferil sonar síns. Kim Chi-nafnið er í dag er töluvert meira en bara nafn á dragdrottningu, enda fer drottningin fyrir förðunarmerkinu Kim Chi Chic. Kim Chi er að auki með yfir 1,9 milljónir fylgjenda á Instagram og er oft gælunefnd af aðdáendum sínum „Skugga Chi“, enda er hún óhrædd við að „varpa skugga“ (e. throw shade) eða skrifa meinfýsnar athugasemdir á bæði Twitter og Instagram.

Kim Chi er 33 ára í dag og við óskum þessari guðdómlegu drottningu innilega til hamingju með afmælið.