Nýútkomin bók Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta landsins, Rætur, er stórmerkt framlag til sögu lands og menningar. Fróðlegt rit á svo margan hátt. Gríðarvel skrifuð. Semíkomma í miklu uppáhaldi. Fengur fyrir þá sem vilja kynna sér veröld sem var og skilja um leið samtímann betur.

Samanburður byggða á Vestfjörðum á uppvaxtartíma stráksins sem varð forseti við dögun borgarsamfélags í Reykjavík dugar einn og sér til að gera bókina áhugaverða. Þá eru litríkar sögur sagðar af fjölda fólks sem Ólafur Ragnar hefur kynnst.

Rætur hafa einnig að geyma persónulegar upplýsingar úr lífi forsetans. Tengslarof við móður vegna veikinda og nostalgísk hugrenningatengsl við upprunann eru dæmi um það. Sem og kafli um aðlögunarár stráksins í Reykjavík og þá ekki síst þann grunn sem lagður var að stjórnmálaframtíð höfundar í MR.

Enginn efast um stórmerkt ævistarf Ólafs Ragnars þótt hann hafi verið umdeildur. Hann var í burðarhlutverki í stjórnmálalífi landsins áratugum saman. Ákvarðanir hans á forsetastóli sættu gjarnan stórtíðindum. Slíkur maður kynnist áberandi fólki.

Nokkrar þjóðþekktar manneskjur fá sinn skammt í bókinni auk hinna sem við þekkjum ekki en vildum kynnast. Aldrei er bókin rætin í garð samferðamanna. Þvert á móti eru þeir sem höfundur virðir kannski síður en aðra jafnan afgreiddir með stuttaralegri og hárfínni kímni. Þar sem Ólafur Ragnar hefur verið kallaður átakaforseti, var kannski viðbúið að hann myndi ekki standast freistinguna að bauna beitt á þá sem hafa verið honum ósammála. Hann stenst þá freistingu.

Yfirbragð bókarinnar er mjúkt og hlýtt. Sérlega gaman var líka að lesa um heim Þingholtanna og Vesturbæjarins eftir að Ólafur Ragnar flutti ásamt foreldrum sínum til Reykjavíkur.

Það er eiginlega bara einn Íslendingur sem Ólafur Ragnar leikur pínu grátt í bókinni án þess að átta sig á því. Hann sjálfur.

Á bls. 24 skrifar hann þannig um sjálfan sig: „Kjölfestan sem fólkið fann. Forsenda fyrir hinu æðsta trausti.“

Bls. 168: „Að taka forystu varð sjálfgefið og eðlislægt.“

Bls. 224: Leikdómur birtist í Morgunblaðinu þar sem framganga mín fékk sérstakt hól; nefndur fyrstur af leikurum sem þóttu skara fram úr.“

Engin góð ástæða er fyrir því að trufla lesandann ítrekað með sjálfshóli. Ólafur Ragnar þarf þess ekki. Við vitum hvers hann hefur verið megnugur. Fyrir utan þessa smávægilegu hnökra er bókin afskaplega vel heppnuð, skemmtileg og fróðleg.

Niðurstaða: Höfundur gerir sér ekki greiða með sjálfshólinu. Allt annað í Rótum er úrvalsgott.