Breska konungs­fjöl­skyldan er sögð hafa átt nokkur sam­töl um húðlit Archie, sonar Meg­han Mark­le og prins Harry, að sögn breska blaða­mannsins Omid Scobie.

Blaða­maðurinn er sagður sá sem að parið hefur helst kosið til að skrifa um sig en hann greindi frá þessu á blaða­manna­fundi í gær. Hann sagði á fundi í London í gær, föstu­dag, að meintu sam­ræðurnar, sem var fyrst talað um í víð­frægu við­tali Meg­han og Harry við Opruh fyrr á árinu, hafi verið tals­vert stórt mál og að margir hafi komið að þessum sam­ræðum innan fjöl­skyldunnar.

„Það var eitt sam­tal sem átti sér stað sem hafði mikil á­hrif á þau, þegar það kom að ein­hverjum innan konungs­fjöl­skyldunnar sem lýsti yfir á­hyggjum um húð­lit Archie,“ sagði Scobie á fundinum.

Hann sagði að það hefðu verið fleiri innan bæði fjöl­skyldunnar og stofnunarinnar sem ræddu það og ekki allir með sömu sam­úð og þá hafi parinu liðið eins og málið væri stærra, því ekki var að­eins um eina mann­eskju að ræða.

Scobie sagðist ekki geta stað­fest hver það var sem að lýsti yfir á­hyggjum sínum við MArk­le því að hann hefði að­eins einn heimildar­mann og gæti ekki stað­fest það sem hann sagði. Hann bætti þó við að ef að manneskjan væri hátt sett innan bresku konungs­fjöl­skyldunnar og yrði mögu­lega yfir henni einn daginn þætti honum eðli­legt að al­menningur yrði upp­lýstur um þessar skoðanir þessa ein­stak­lings gagn­vart kyn­þætti.

Greint er frá á Page Six.