Borgarbókasafnið Gerðubergi er þessa dagana að umbreytast í dularfullan heim byggðan úr mörg þúsund bókum. Þar býðst gestum bókasafnsins að taka þátt í miserfiðum ratleikjum þar sem framvinda mála er ekki ráðin.

„Þegar allt var lokað í faraldrinum kom þessi hugmynd um að setja á svið einhvers konar ævintýraheim sem myndi fá inn nýtt fólk og gamlir bókasafnsgestir gætu upplifað safnið upp á nýtt. Að safnið væri orðið að einhvers konar leikvelli,“ segir Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri safnsins.

Innblásturinn að ratleikjunum var að miklu leyti fenginn frá Þínum eigin-bókum Ævars Þórs Benediktssonar og var hann fenginn til að leggja verkefninu lið.

Þá ákváðu sýningarstjórar safnsins, Embla og Svanhildur Halla, að allt yrði búið til úr hlutum sem má finna á bókasafni. „Við fórum þá í átak við að safna gömlum bókum, nýta gamlar merkingar og fleira,“ segir Ilmur. „Þegar við kölluðum eftir gömlum bókum á samfélagsmiðlum var eins og við hefðum opnað öskju Pandóru. Fólk sem býr á Íslandi á mikið af alls konar bókum sem streymdu til okkar, margar hverjar algjörar gersemar.“

Ilmur segir að tugir þúsunda bóka hafi fengist úr söfnuninni.

„Við náðum að fylla heilan sal sem er kannski um 200 fermetrar og byggðum úr honum þennan heim þar sem ráðgáturnar eiga sér stað.“

Ráðgáturnar eru þrjár talsins með ólíkum þemum, ævintýraþema, vísindaþema og hrollvekjuþema. Sameiginlegur ráðgátunum öllum er Gerðubergur gamli, sem er gestum innan handar.

„Ráðgáturnar eru í anda flóttaherbergja þar sem þú þarft að leysa eina ráðgátu til að komast að næstu stöð,“ segir Ilmur. „Við erum búin að prufukeyra leikinn á fullt af fullorðnu fólki sem hefur þótt þetta virkilega skemmtilegt.“

Ævintýragátan tekur um 20 mínútur að staðaldri en vísinda- og hrollvekjugáturnar um 40 mínútur. Ilmur segir fyrirhugað að ráðgáturnar standi gestum til boða fram til apríl á næsta ári.

Skráning í ráðgáturnar fer fram á vef Borgarbókasafnsins þar sem einnig er hægt að skrá skólahópa.