Um síðustu helgi opnaði Nýlistasafnið sýninguna Til sýnis: Hinsegin umfram aðra, sem ætlað er að varpa ljósi á hinsegin myndlist í safneign Nýlistasafnsins í samtali við ný verk eftir framsækið hinsegin listafólk. Sýningunni stýra þær Ynda Eldborg listfræðingur og Viktoría Guðnadóttir myndlistarmanneskja.
Viktoría: „Þegar við komum með þessa tillögu til Nýlistasafnsins, um að gera hinsegin sýningu, þá kom fram hugmyndin að taka einhvern veginn safneignina inn í sýninguna. Við fórum í gegnum safneign Nýlistasafnsins og völdum verk sem við gátum á einn eða annan hátt flokkað sem hinsegin. Það voru 54 verk og síðan báðum við listafólk um að taka eitt af þeim verkum og búa til nýtt verk byggt á því.“
Listafólkinu var frjálst að velja hvaða verk sem var úr safneign Nýló og búa til nýtt verk án nokkurra hamla. Nýju verkin og verkin úr safneigninni eru svo sýnd samhliða á sýningunni.
Listafólk á sýningunni eru Anna Maggý, Ari Logn, BERGHALL – Anna Hallin & Olga Bergmann, Dorothy Iannone, Hrafna Jóna Ágústsdóttir, Níels Hafstein, Ragna Hermannsdóttir, Rb Erin Moran, Regn Sólmundur Evu, Róska, Svala Sigurleifsdóttir, Stephen Lawson og Viktoria Gudnadottir.

Breitt aldursbil listafólks
Ynda segir þær hafa handvalið listafólkið sem gerði ný verk fyrir sýninguna, sem er allt hinsegin, og lagt áherslu á að hafa aldursbilið nokkuð breitt.
Ynda: „Ég held að yngsta listamanneskjan sé í kringum 24 ára og ennþá í Listaháskólanum. Síðan eru Anna Hallin og Olga Bergmann, sem eru mjög sjóaðar. Þetta er bæði samtal við safnið og safneignina og líka samtal á milli hinsegin kynslóða sem er mjög spennandi.“
Eitt af því sem þær Viktoría og Ynda höfðu til hliðsjónar þegar þær settu saman sýninguna er módel sem ber heitið FLINT sem er upprunnið í Þýskalandi og stendur fyrir Female, Lesbian, Intersex, Non-Binary og Trans.
Þetta er bæði samtal við safnið og safneignina og líka samtal á milli hinsegin kynslóða sem er mjög spennandi.
Karlmenn njóti forgangs
Ynda: „Við þurfum ekkert að leita langt til að sjá það að karlmenn njóta algjörs forgangs í myndlistarheimi samtímans. Þetta kerfi sem ríkir hefur gert svo margt fólk ósýnilegt. Í fræðilegu samhengi eigum við mjög mikið póstmódernismanum að þakka og femínistahreyfingum.“
Ynda nefnir sérstaklega kvennasýninguna Hér og nú sem haldin var á Kjarvalsstöðum í tilefni Listahátíðar kvenna 1985. Hún segir þá sýningu hafa verið ákveðna fyrirmynd fyrir Til sýnis: Hinsegin umfram aðra.
Ynda: „Í þeirri sýningu voru konur teknar út úr þessu algilda módeli og urðu að sérstakri stærð. Það er líka það sem okkur langar til að gera, að hinsegin listafólk geti búið til sína myndlist á sínum eigin forsendum án þess að vera bundið af hefðarveldi feðraveldisins.“
Er kominn tími til að hinsegin listafólk fái uppreist æru í listheiminum?
Ynda: „Algjörlega! Þótt fyrr hefði verið. Það eru til sögur um hinsegin listafólk í íslenskri listasögu en því hefur verið ýtt til hliðar og það ekki fengið að tala á eigin forsendum.“

Rétt sýning á réttum tíma
Um þessar mundir er mikið rætt um bakslag í réttindum hinsegin fólks. Spurðar hvort þeim finnist listin vera mikilvægur liður í þeirri baráttu segja þær Viktoría og Ynda:
Viktoría: „Það er alltaf mikilvægt að hinsegin fólk sé sýnilegt og það þarf að vera alls staðar í samfélaginu, líka í listheiminum. Til að vinna á móti bakslagi þá er það mikilvægt.“
Ynda: „Að því leytinu til þá er þessi sýning rétta sýningin á rétta tímanum, því allt listafólkið sem sýnir er ekkert að fela neitt. Hvorki pólitísk viðhorf, né viðkvæmni eða brothætta tilveru, heldur er bara allt sett fram af fullum krafti og sannfæringu.“
Stóru skrefi náð
Funduð þið einhver sameiginleg þemu eða þræði í verkum listafólksins?
Ynda: „Við vorum ekki að reyna að draga fram einhverja sameiginlega þræði, heldur miklu frekar að reyna að sýna hvernig listafólk af ólíkum kynslóðum nálgast þennan menningararf í Nýló á ólíkan hátt. Það er að sýna sig betur og betur að unga hinsegin listafólkið er að öðlast fyrirmyndir og er að fatta að það hefur rödd sem skiptir máli. Ef við getum hjálpað þeim að finna sína eigin rödd á sínum eigin forsendum, þá er stóru skrefi náð.“
Þær Viktoría sammælast um að þótt hinsegin listafólk fái ekki oft brautargengi á listasöfnum þá sé mikil gróska í hinsegin listasenunni.
Viktoría: „Það er gróska, það bara hefur ekki komist inn í listasöfnin þangað til núna.“
Ynda: „Það skiptir máli að þessar raddir fái að heyrast.“
Fréttin hefur verið uppfærð.