Um síðustu helgi opnaði Ný­lista­safnið sýninguna Til sýnis: Hin­segin um­fram aðra, sem ætlað er að varpa ljósi á hin­segin mynd­list í safn­eign Ný­lista­safnsins í sam­tali við ný verk eftir fram­sækið hin­segin lista­fólk. Sýningunni stýra þær Ynda Eld­borg list­fræðingur og Viktoría Guðna­dóttir mynd­listar­manneskja.

Viktoría: „Þegar við komum með þessa til­lögu til Ný­lista­safnsins, um að gera hin­segin sýningu, þá kom fram hug­myndin að taka ein­hvern veginn safn­eignina inn í sýninguna. Við fórum í gegnum safn­eign Ný­lista­safnsins og völdum verk sem við gátum á einn eða annan hátt flokkað sem hin­segin. Það voru 54 verk og síðan báðum við lista­fólk um að taka eitt af þeim verkum og búa til nýtt verk byggt á því.“

Lista­fólkinu var frjálst að velja hvaða verk sem var úr safn­eign Nýló og búa til nýtt verk án nokkurra hamla. Nýju verkin og verkin úr safn­eigninni eru svo sýnd sam­hliða á sýningunni.

Lista­fólk á sýningunni eru Anna Maggý, Ari Logn, BERG­HALL – Anna Hallin & Olga Berg­mann, Dor­ot­hy Iann­one, Hrafna Jóna Ágústs­dóttir, Níels Haf­stein, Ragna Her­manns­dóttir, Rb Erin Moran, Regn Sól­mundur Evu, Róska, Svala Sigur­leifs­dóttir, Stephen Law­son og Viktoria Gudna­dottir.

Til sýnis: Hinsegin umfram aðra inniheldur bæði eldri verk og safneign Nýlistasafnsins og ný verk eftir hinsegin listafólk.
Fréttablaðið/Valli

Breitt aldurs­bil lista­fólks

Ynda segir þær hafa hand­valið lista­fólkið sem gerði ný verk fyrir sýninguna, sem er allt hin­segin, og lagt á­herslu á að hafa aldurs­bilið nokkuð breitt.

Ynda: „Ég held að yngsta lista­manneskjan sé í kringum 24 ára og enn­þá í Lista­há­skólanum. Síðan eru Anna Hallin og Olga Berg­mann, sem eru mjög sjóaðar. Þetta er bæði sam­tal við safnið og safn­eignina og líka sam­tal á milli hin­segin kyn­slóða sem er mjög spennandi.“

Eitt af því sem þær Viktoría og Ynda höfðu til hlið­sjónar þegar þær settu saman sýninguna er módel sem ber heitið FLINT sem er upp­runnið í Þýska­landi og stendur fyrir Fema­le, Les­bian, Inter­sex, Non-Binary og Trans.

Þetta er bæði sam­tal við safnið og safn­eignina og líka sam­tal á milli hin­segin kyn­slóða sem er mjög spennandi.

Karl­menn njóti for­gangs

Ynda: „Við þurfum ekkert að leita langt til að sjá það að karl­menn njóta al­gjörs for­gangs í mynd­listar­heimi sam­tímans. Þetta kerfi sem ríkir hefur gert svo margt fólk ó­sýni­legt. Í fræði­legu sam­hengi eigum við mjög mikið póst­módern­ismanum að þakka og femín­ista­hreyfingum.“

Ynda nefnir sér­stak­lega kvenna­sýninguna Hér og nú sem haldin var á Kjarvals­stöðum í til­efni Lista­há­tíðar kvenna 1985. Hún segir þá sýningu hafa verið á­kveðna fyrir­mynd fyrir Til sýnis: Hin­segin um­fram aðra.

Ynda: „Í þeirri sýningu voru konur teknar út úr þessu al­gilda módeli og urðu að sér­stakri stærð. Það er líka það sem okkur langar til að gera, að hin­segin lista­fólk geti búið til sína mynd­list á sínum eigin for­sendum án þess að vera bundið af hefðar­veldi feðra­veldisins.“

Er kominn tími til að hin­segin lista­fólk fái upp­reist æru í list­heiminum?

Ynda: „Al­gjör­lega! Þótt fyrr hefði verið. Það eru til sögur um hin­segin lista­fólk í ís­lenskri lista­sögu en því hefur verið ýtt til hliðar og það ekki fengið að tala á eigin for­sendum.“

Sýningarstýrur vildu reyna að sýna hvernig lista­fólk af ó­líkum kyn­slóðum nálgast hinsegin menningar­arf Nýlistasafnsins á ó­líkan hátt.
Fréttablaðið/Valli

Rétt sýning á réttum tíma

Um þessar mundir er mikið rætt um bak­slag í réttindum hin­segin fólks. Spurðar hvort þeim finnist listin vera mikil­vægur liður í þeirri bar­áttu segja þær Viktoría og Ynda:

Viktoría: „Það er alltaf mikil­vægt að hin­segin fólk sé sýni­legt og það þarf að vera alls staðar í sam­fé­laginu, líka í list­heiminum. Til að vinna á móti bak­slagi þá er það mikil­vægt.“

Ynda: „Að því leytinu til þá er þessi sýning rétta sýningin á rétta tímanum, því allt lista­fólkið sem sýnir er ekkert að fela neitt. Hvorki pólitísk við­horf, né við­kvæmni eða brot­hætta til­veru, heldur er bara allt sett fram af fullum krafti og sann­færingu.“

Stóru skrefi náð

Funduð þið ein­hver sam­eigin­leg þemu eða þræði í verkum lista­fólksins?

Ynda: „Við vorum ekki að reyna að draga fram ein­hverja sam­eigin­lega þræði, heldur miklu frekar að reyna að sýna hvernig lista­fólk af ó­líkum kyn­slóðum nálgast þennan menningar­arf í Nýló á ó­líkan hátt. Það er að sýna sig betur og betur að unga hin­segin lista­fólkið er að öðlast fyrir­myndir og er að fatta að það hefur rödd sem skiptir máli. Ef við getum hjálpað þeim að finna sína eigin rödd á sínum eigin for­sendum, þá er stóru skrefi náð.“

Þær Viktoría sam­mælast um að þótt hin­segin lista­fólk fái ekki oft brautar­gengi á lista­söfnum þá sé mikil gróska í hin­segin lista­senunni.

Viktoría: „Það er gróska, það bara hefur ekki komist inn í lista­söfnin þangað til núna.“

Ynda: „Það skiptir máli að þessar raddir fái að heyrast.“

Fréttin hefur verið uppfærð.