Rósa Hrund Kristjáns­dóttir var list­rænn stjórnandi og Snjó­laug Lúð­víks­dóttir texta- og hug­mynda­smiður nýrrar aug­lýsingar VIRK þar kyn­ferðis­leg á­reitni er tekin fyrir með húmorinn að vopni. Í aug­lýsingunni syngur kórinn Vo­cal Pro­jects „Það má ekkert lengur“ yfir ýmis at­riði þar sem leikarar leika ó­líkar tegundir kyn­ferðis­legrar á­reitni.

„Við höfum unnið með VIRK áður og þau komu til okkar í febrúar með þetta verk­efni,“ segir Rósa Hrund og að beiðnin hafi komið í kjöl­far nýrrar skýrslu sem sýndi að kyn­ferðis­leg á­reitni er veru­lega al­geng á vinnu­markaði á Ís­landi.

„Þeirra hlut­verk er að grípa fólk sem dettur af vinnu­markaði og á sama tíma að koma í veg fyrir að það gerist. Vel­líðan starfs­fólks er þeim mjög mikil­væg. Þau langaði því að finna ein­hverja leið til að vekja at­hygli á mál­efninu og vekja fólk til um­hugsunar,“ segir Rósa Hrund.

Leist ekkert á hug­myndina fyrst

Þær segja báðar að til að byrja með hafi til­hugsunin um að gera aug­lýsingar um þetta mál­efni verið smá ógn­væn­leg. Þetta sé flókið og við­kvæmt mál­efni. „Við byrjuðum á nálgun sem var meira eins og fræðslu­mynd­band,“ segir Snjó­laug og að þeim hafi ekki þótt það spennandi nálgun en eftir því sem þær hugsuðu málið betur hafi þær fundið leið sem gæti virkað og sú leið var að nota húmor.

„Þó svo að þetta sé við­kvæmt mál­efni fannst okkur húmor alveg við­eig­andi. Þetta er svart mál­efni en húmor er frá­bær leið til að ná til víðari hóps,“ segir Snjó­laug. Rósa Hrund tekur undir það og telur að þetta hafi verið betri leið til að ná til fleiri.

„Við erum að vona að með aug­lýsingunni sjái fólk hvað það er hall­æris­legt að segja þetta,“ segir Snjó­laug.

„Okkur langaði að skemma þessa setningu. Að á­hrifin væru að þegar fólk segir þetta fái það aula­hroll. Að það verði ekki töff lengur,“ segir Rósa Hrund.

Snjó­laug segir að þegar hug­myndin hafi verið komin og sam­þykkt hafi þær fengið Reyni Lyng­dal leik­stjóra og Hannes Frið­björns­son fram­leiðanda með að borðinu.

„Við lögðumst saman yfir textann og Reynir tók hug­myndina upp á næsta stig með út­færslunni,“ segir Snjó­laug og þannig hafi hár­réttur tónn verið sleginn í leik­stjórn.

Rósa Hrund Kristjáns­dóttir og Snjó­laug Lúð­víks­dóttir.
Fréttablaðið/ERNIR

Margir horfi enn í hina áttina

Þær segja að við gerð aug­lýsingarinnar hafi þær lagst í mikla rann­sóknar­vinnu. Það hafi margt gerst eftir #MeT­oo og margt hafi breyst til hins betra, en enn fái ó­við­eig­andi hegðun að við­gangast og enn horfi allt of margir í hina áttina þegar þeir verða vitni að þessari hegðun.

„Okkur langaði að ná til ger­enda, til þeirra sem líta undan og til þeirra sem gera lítið úr þessu. Við höfum öll heyrt þessa setningu, og jafn­vel sagt hana í gríni, en það eru akkúrat þessi við­brögð sem eru svo hamlandi. Þessar litlu pillur sem gera lítið úr þeim sem eru að reyna að breyta sam­fé­laginu.“

Þær segja báðar að það hafi verið þeim mjög mikil­vægt að fara rétta leið að þessu mál­efni og áður en aug­lýsingin var frum­sýnd var hún borin undir fjölda manns, bæði hjá VIRK en líka utan þess, eins og hjá Stíga­mótum og Vinnu­eftir­litinu. Þær segja að það hafi verið vanda­samt verk að velja hvers konar of­beldi yrði lögð á­hersla á. Í aug­lýsingunni eru bæði konur og karl­menn ger­endur og segja þær báðar að það hafi verið mikil­vægt að sýna fram á það, vitandi þó að meiri­hluti ger­enda sam­kvæmt rann­sóknum séu karl­menn.

„Við vildum frekar hafa bæði. Við erum ekki að ráðast bara á karl­menn heldur sam­fé­lags­legt við­horf sem er ekki bundið við eitt kyn.“