Flatey í Breiðafirði er sannkölluð matarkista og náttúruparadís sem á sér enga líka. Ingibjörg rak Hótel Flatey í mörg ár ásamt fleirum með himnesku eldhúsið þar sem matarástríða Ingibjargar fékk að njóta sín til fulls.

Nú er uppskerutíminn kominn á fullt og við leituðum því í smiðju Ingibjargar eftir ljúffengri uppskrift sem á vel við á þessum árstíma, Rabarbaradásemd sem bráðnar í munni.

„Rabarbaradásemdin var fundin upp af okkur Ingunni Jakobsdóttur þegar við opnuðum Hótel Flatey í forðum með eingöngu fimm herbergjum og samkomuhúsinu sem einnig var veitingastaður hótelsins. Dásemdin sló strax í gegn og það var varla að við önnuðum eftirspurn, svo vinsæl var hún,“ segir Ingibjörg og brosir dreymin á svip.

Hér sviptir Ingibjörg hulunni af þessari dásemd sem allir verða að prófa. Gaman er að geta þess að Ingibjörg gaf út matreiðslubókina Mensu fyrir nokkrum árum, þar sem matur, minningar og litlir hlutir sem skipta máli eru í forgrunni.

ingibjörg asta4771.jpg

Rabarbaradásemdin

Eftirréttur fyrir 8

8 ofnfastar skálar

Skálarnar fylltar með eftirfarandi:

3 græn epli

3 stilkar rabarbari

8 tsk. púðursykur

5 cm af ferskum engifer

Skrælið eplin og skerið þau, fyrst í hálfmána og svo í bita. Skolið rabarbarann og skerið hann í litla bita (um það bil 1 ½ cm þykka). Flysjið engiferinn og raspið hann. Hrærið þessu saman við með sleif og bætið við púðursykrinum saman við. Setjið ávaxtablönduna í litlar ofnfastar skálar eða í eina stóra skál eða eldfast mót. Búið til deigið og hyljið skálarnar með því.

Deig

250 g smjör

250 g hveiti

200 g sykur

Hrærið smjöri, hveiti og sykri saman í hrærivél. Gott er að kæla deigið í ísskáp en ekki nauðsynlegt. Ef litlar skálar eru notaðar er gott að rúlla deiginu upp í breiða pylsu, pakka því inn í matarfilmu og kæla. Skerið deigpylsuna með hnífi í þunnar kringlóttar sneiðar og leggið svo hverja sneið fyrir sig ofan á ávaxtablönduna í skálinni. Rabarbaradásemd er bökuð við 180°hita í 25 mínútur eða þar til deigið er orðið gullinbrúnt. Þessi dásemd er borin fram heit með vanilluís eða þeyttum rjóma. Njótið vel.

Ingibjörg Ásta mensa.jpg