Friðrik Agni segir að þeir Sigursteinn hafi lengi vitað hvor af öðrum og ákveðið að hefja samstarf fyrr á árinu.

„Sigursteinn hefur lengi verið viðriðinn geðheilbrigðismál. Hann var formaður Geðhjálpar í mörg ár og hefur talað opinskátt um sína reynslu. Við erum góðir vinir og ákváðum að setja þetta hlaðvarp af stað. Við fundum samleið í að geta talað um þessi mál, við viljum tala um þau og finnst það mikilvægt,“ segir Friðrik Agni.

„Við erum af ólíkri kynslóð en náum samt vel saman. Við erum báðir samkynhneigðir, ekki að það sé eitthvað sérstaklega til umræðu í þáttunum en það speglar samt að einhverju leyti hvernig við upplifum hluti. Við erum að taka fyrir ákveðin þemu sem tengjast geðheilsu í hverjum þætti. Við nálgumst þau með því að tala um eigin reynslu og líka út frá rannsóknum og bókum. Við reynum að tengja það saman svo fólk nái að tengja efnið við okkur en fái líka að heyra um efnið á almennum nótum.“

Viðbrögðin falleg og góð

Í fyrsta þættinum sem fór í loftið á mánudaginn ræddu þeir um áföll. Þar talaði Friðrik Agni í fyrsta sinn opinberlega um áföll sem hann varð fyrir í barnæsku. Hann segir viðbrögðin sem hann hefur fengið frá fólki við þættinum hafa verið mjög falleg og góð.

„Þátturinn snerist mikið um mig og mín áföll. Hann kom svolítið inn á það sem hefur verið mikið í brennidepli í samfélaginu núna, sem er kynferðisofbeldi og umræðan um þolendur og gerendur. Hvernig við glímum við áföll og eftirmál þeirra og hvernig við getum unnið okkur úr þeim á heilbrigðan hátt án þess að skrímslavæða fólk. Ég held að þessi umræða undanfarin fjögur ár, eftir #MeToo, sé komin til að vera. Við erum að vinna í þessu þema og við þurfum að halda því áfram,“ segir Friðrik Agni.

„Við ætlum alltaf að fara með þættina í loftið á mánudagsmorgnum og tækla mismunandi þemu. Pælingin er að reyna að halda þáttunum undir klukkutíma og koma okkur beint að efninu. Við gerðum Instagram-síðu fyrir þáttinn sem heitir Geðslagið og líka Facebook-hóp þar sem hægt er að ræða efni þáttarins. Við vildum búa til uppbyggjandi umræðuvettvang þar sem fólk getur rætt þáttinn og sína reynslu af því sem við erum að tala um.“

Friðrik Agni segir að þessi hlaðvarpsþáttur sé einn angi af stærra samstarfi á milli hans og Sigursteins svo það má búast við að heyra meira frá þeim félögum á næstunni.