Það er mikil vakning í samfélaginu og við viljum vera til staðar fyrir feður sem eru að ganga í gegnum erfiða hluti og vera með ráð fyrir nýbakaða feður sem hafa kannski ekki greiðan aðgang að upplýsingum,“ segir Gunnar Bersi sem er nýbyrjaður með hlaðvarpsþættina Pabbaorlof ásamt félaga sínum Alexander Maron.

Gunnar Bersi segir þá félaga telja karlmenn vanta vettvang til þess að ræða um og jafnvel viðra áhyggjur sínar af öllu sem viðkemur fæðingum og börnum. „Við viljum að þetta verði vettvangur fyrir feður til að tjá sig og opna á umræður um til dæmis fæðingarþunglyndi feðra, upplifun þeirra í fæðingunni og fá fæðingarsögur þeirra og uppeldisráð.

Gunnar Bersi hefði vel þegið þátt eins og Pabbaorlof á sínum tíma.

Við ræðum líka við mann sem er í forsjárbaráttu og föður langveiks barns. Við ætlum bara að heyra í alls konar fólki og kynnast þeirra hlið.“

Örugg vinátta

Gunnar Bersi og Alexander Maron kynntust í Öryggismiðstöðinni þar sem þeir hafa verið vinnufélagar í sex ár. „Við erum orðnir góðir vinir og konurnar okkar líka,“ segir Gunnar Bersi um traustan grunn vináttu þeirra og nú einnig hlaðvarpsins.

„Við höfum í rauninni bara alltaf haft mikinn áhuga á þessu og hann Alexander Maron kom með þessa hugmynd og bað mig um að taka þátt í þessu verkefni með sér og mér leist bara mjög vel á það,“ segir Gunnar Bersi og bætir aðspurður við að hann eigi tvö börn og Alexander Maron þrjú.

„Ég er með einn sex ára strák og þriggja ára dóttur og hann er með eina fjögurra ára, eina tveggja ára og einn þriggja mánaða.“

Venjulegir pabbar

Gunnar Bersi segir þá félagana því óneitanlega byggja á eigin reynslu í þáttunum þótt þeir leiti víða fanga meðvitaðir um að þrátt fyrir allt séu þeir engir sérfræðingar frekar en aðrir ósköp venjulegir pabbar.

„Við erum engir sérfræðingar þannig séð og þetta er í rauninni ferðalag fyrir okkur til þess að fræðast um hvernig þetta er hjá öðrum og leyfa öðru fólki að hlusta á og vonandi fræðast eitthvað í leiðinni.“

Vinirnir kynntust hjá Öryggismiðstöðinni þar sem báðir hafa starfað um árabil og með þeim tókst mikil og náin vinátta.

Gunnar Bersi segir að það sé engin spurning að hann hefði viljað hafa aðgang að þáttum á borð við Pabbaorlof þegar hann var að stíga sín fyrstu skref inn í föðurhlutverkið.

„Algjörlega. Ég er búinn að hlusta sjálfur á þó nokkuð af þessum podcöstum sem konur eru búnar að vera að gera sem eru mjög flott,“ segir Gunnar Bersi og nefnir til dæmis Fæðingacast og Þokuna.

Gunnar Bersi vonast til þess að auk feðra úr ýmsum áttum geti þeir fengið sérfræðinga í þáttinn. „Til dæmis uppeldissérfræðinga og sálfræðinga til að fara ofan í þessi dýpri mál. Eins og til dæmis fæðingarþunglyndi hjá pöbbum.“

Fæðingarþunglyndur faðir

„Ég hefði algjörlega tekið því fagnandi ef ég hefði getað leitað til annarra feðra sem eru í svipuðum aðstæðum og getað hlustað á hvernig þetta er hjá þeim og vitað að maður er kannski ekkert einn í þessari stöðu,“ segir Gunnar Bersi og getur hugsað sér ýmsar aðstæður þar sem gott hefði getað verið að leita ráða hjá lengra komnum.

„Eins og til dæmis bara ef maður er pirraður ef barnið á erfitt með að sofna. Ég upplifði líka fæðingarþunglyndi með seinna barnið og það hefði verið fínt að vita hvernig aðrir upplifðu það og vita að þetta sé eðlilegt. Maður vill náttúrlega ekkert tala um þetta.

Við karlmenn erum í rauninni mjög lélegir í að leita okkur hjálpar og tala um svona hluti og viljum kannski heldur ekki stela líka þrumunni frá konunni sem er búin að gera ótrúlega hluti með því að eignast barn.“

Vilja vera til staðar

Gunnar Bersi tekur undir að ábyrgðartilfinningin sem fylgir því að verða pabbi geti virkað yfirþyrmandi. „Við viljum opna fyrir að karlmenn geti talað um þetta sín á milli og leitað sér hjálpar og ef þetta hjálpar einhverjum eða einhver lærir eitthvað af þessu þá er tilgangi okkar náð.“