Júlía er óhrædd við að tjá sig með fallegum mynstrum, skemmtilegum litatónum og áhugaverðum útgáfum af áferð. Hún segir að fatastíllinn sé „alveg frekar extra“ og að hún kunni ekki að gæta hófs. „Ég missi mig til dæmis þegar kemur að glimmeri, litum, blingi, snákamynstri og blúndum. Mjög oft ægir öllu saman og ég er eins og gangandi diskókúla eða jólatré í stripparahælum og það er kannski bara í vinnunni fyrir hádegi á þriðjudegi,“ segir Júlía og kímir.

Þurfti ekki að brjóta múra

Hún segir að sér hafi alltaf þótt gaman að klæða sig upp. „Þegar ég var yngri reyndi ég oft að plata mömmu og pabba á morgnana, að það væri hinn eða þessi hátíðardagurinn, eða að nýr og nýr krakki ætti afmæli svo ég fengi að fara í púffermablúndukjól í leikskólann. Þetta er ekki einhver pressa sem ég hef fundið fyrir sem kona, að þurfa að vera alltaf fín og í háum hælum, þetta er bara eitthvað sem hefur alltaf fylgt mér. Margir vinir mínir og dragdrottningar til dæmis, hafa talað um að langa til að klæða sig upp frá því þær voru börn og þegar þær segja þessar sögur er ég bara: Ó, já, ég tengi algjörlega! Munurinn á mér og þeim er að þær þurftu margar að brjóta niður múra, ég þurfti bara að fara í kjólinn.“

Hún er óhrædd við að blanda saman litum og segir diskókúlulúkkið alveg ganga upp á vinnustaðnum.

Verður æst á útsölum

Að sögn hefur hún gaman af því að fara á útsölur og segist vera í sterkri tengingu við sitt miðaldra sjálf, þrátt fyrir að vera ekki eldri en 33 ára. „Ég verð alltaf æst þegar ég sé ógeðslega miðaldra og ósmekklegt dýrafeldsmynstur. Ætli það sé ekki elli kerling að banka upp á? Og það er það sem er svo fínt með útsölur. Mig langar oftast mest í það sem flestum finnst allt of mikið, neonlitað og ruglað fyrir sinn smekk svo það endar á útsölunni.“

Júlía viðurkennir að hún mætti alveg tóna niður fatagræðgina og verða aðeins umhverfismeðvitaðri. „Mér finnst mjög gaman að fara á útsölur í merkjavörubúðum. Ég er ekki stolt af þessum hégóma og snobbi en það er bara svo geggjað. Ég lýg oft að systurdætrum mínum sem, líkt og unga kynslóðin, eru miklu meira með á nótunum í loftslagspælingum en ég, og segi þeim að ég hafi keypt nýja kjólinn notaðan. En svo endar það alltaf á því að ég kem bara hreint fram, þær vita alltaf hvenær ég er að ljúga.

Á döfinni er útgáfa bókar hennar, Guð leitar að Salóme, en hún fékk frábærar viðtökur við síðustu bók sinni, Drottningin á Júpíter.

Í seinni tíð kaupi ég oftast líka bara aðeins dýrari föt sem endast lengur. Ég hef komist að því að svona „fast fashion“ er alveg rotið fyrirbæri. Að kaupa bol í draslbúð sem eyðileggst eftir einn þvott er eitthvað svo sjúkt á alla vegu.“

Fær A fyrir viðleitni

Þessi litaglaða kona segist þó vera glötuð í saumaskap. „Nei, guð minn góður. Ég er allt of mikill klunni og óþolinmóð til að sauma. Ég þoldi ekki saumatíma í grunnskóla því ég var bara ömurleg í þessu. Alltaf að missa lykkjur þegar ég prjónaði og spólaði bara á saumavélinni og ekkert gerðist. Eða ég flækti þráðinn og saumakennarinn skildi ekkert hvernig ég fór að því.“

Júlía er að ljúka við að klippa þáttaröð sem hún leikstýrði á síðasta ári og heitir Norms.
Sigtryggur Ari

Klaufskan kemur þó ekki í veg fyrir að hún geri tilraunir til myndarskaps. „Stærsta gjöfin sem ég hef gefið kærastanum mínum er trefill sem ég prjónaði sjálf. Hann er allur götóttur og mjókkar og breikkar á víxl, allt of stuttur á hann en það tók þrjú ár að prjóna hann og þess vegna fæ ég A fyrir viðleitni.“

Nóg að gera

Júlía starfar sem menningarblaðamaður hjá RÚV og er að leggja lokahönd á aðra skáldsögu sína sem heitir Guð leitar að Salóme og kemur út á næstu mánuðum. „Svo er ég að klára að klippa sjónvarpsþætti sem ég leikstýrði á síðasta ári og heita Norms. Framleiðsluteymið á bak við þættina heitir Lost shoe collective. Þættirnir eru stuttir, svona örsería sem gerist bæði í Berlín og Reykjavík og er í raun samstarfsverkefni íslensks, þýsks og reyndar bresks og kólumbísks kvikmyndagerðafólks. Þetta er alþjóðlegt verkefni sem var styrkt af Erasmus en fjallar um íslenska stelpu sem flytur til Berlínar. Við erum enn að finna út hvar við frumsýnum þá en þetta er fyrst og fremst vefsería í anda Skam, en fyrir eldri áhorfendur. Það er því nóg að gera sem hentar mér mjög vel.“