Ámundi Johansen, eigandi Johansen Deli, grillaði salsiccia, ítalskar grillpylsur sem fást til að mynda í Hagkaupum og Melabúðinni. Pylsurnar eru framleiddar hér á landi. Með pylsunum bar Ámundi fram ferskt og sumarlegt salat með appelsínu, sýrðum rauðlauk og fennel.

„Það er gott að setja grillpinna í gegnum pylsuna miðja í kross svo hún haldist saman og skera svolítið í hana svo hún springi ekki,“ segir Ámundi sem segist halda að rétturinn muni slá í gegn hjá félögum sínum í Bartónum, kór sem var stofnaður á Kaffibarnum fyrir nærri áratug.

Hér sést vel hvernig Ámundi hefur stungið í pylsuna til þess að hún haldist saman á grillinu.

Miðausturlenskar grænmetis­pylsur

„Ég ákvað að gera miðausturlenskar grænmetispylsur og bera þær fram í naan-brauði,“ segir Ylfa Helgadóttir, matreiðslumeistari á Kopar, sem segir réttinn hafa slegið í gegn. „Lykillinn að góðu bragði er að steikja þær kryddaðar á grillinu.“

Ylfa með rétt sem sannast sagna sló í gegn á ritstjórn Fréttablaðsins. Það er óhætt að mæla með því að prófa uppskriftina.
Stefán Karlsson

Fyrir fjóra

Steikt grænmetispylsa með kryddi

 • 2 msk. ólívuolía
 • ½ tsk. paprikuduft
 • ½ tsk. hvítlauksduft
 • ½ tsk. þurrkaður chili/cayenne
 • ½ tsk. salt
 • ½ tsk. timian (eða oregano)
 • 4 grænmetispylsur
 • 4 naan-brauð

Aðferð:

Panna sett á hita og olían og öll kryddin sett á pönnuna. Léttsteikið kryddin þar til olían byrjar að krauma. Þá fara pylsurnar á pönnuna, á háum hita og hristið vel í pönnunni þannig að pylsurnar steikist á öllum hliðum og séu vel þaktar í kryddunum.Eftir um 5-7 mínútur af steikingu ætti að vera komin falleg steikingarhúð á þær. Þá má taka þær af og raða naan-brauðinu á pönnuna og láta það draga í sig restina af olíu og kryddum.

Sinneps-jógúrtkarrísósa

 • 4 msk. grísk jógúrt frá Bíó bú
 • 2 msk. jalapeno mustard
 • ¼ tsk. túrmerik
 • ½ tsk. karrý
 • Salt á hnífsoddi
 • Aðferð:
 • Öllu blandað saman.
 • Pistasíu- og döðlugúrkusalat
 • ½ dl pistasíur – gróft hakkaðar
 • ½ dl döðlur – gróft hakkaðar
 • 15 cm bútur af gúrku – skorinn í þunnar sneiðar og svo í fernt
 • 2 msk. grænt pestó (eða góð ólívuolía)

Samsetning

Smyrjið hummus á naan-brauðið, raðið kórí­ander (eða annari jurt/salati) ofan á og setjið svo grænmetispylsuna næst. Á pylsuna fer jógúrtsósan, pistasíusalat og að lokum granatepli.

Grænmetispylsa grilluð upp úr papriku, salti, hvítlauksdufti, cayenne og timian.
Stefán Karlsson
Vinsælasti rétturinn á Skál er pylsa í brauði. Gísli Matthías segist hafa viljað tengja við söguna en einmitt þar sem Skál er í Mathöllinni var áður sjoppa sem seldi pylsur.

Vísa í söguna á Hlemmi

Gísli Matthías Auðunsson, matreiðslumeistari á Skál í Mathöllinni á Hlemmi, segir forláta pylsurétt þann vinsælasta á staðnum. „Skál er á sama stað og sjoppan sem var áður á Hlemmi og seldi pylsu í brauði. Við vildum vísa í söguna en gerum okkar útgáfu. Rétturinn er sá vinsælasti á staðnum. Við gerum allt frá grunni og lögum heimagert remúlaði og lakkrístómatsósu með.“

Áslaug með lambapylsur á grænkáli með fallegu og skrautlegu meðlæti.
Áslaug Snorradóttir

Af hverju ekki ber og rabarbari?

segir Áslaug Snorradóttir sem setur lambapylsur frá Pylsu­meistaranum í grænkál í stað pylsubrauðs og ber fram með meðlæti úr náttúrunni og skreytir jafnvel með blómum og berjum.

Denis Grbic með afar vinsælan rétt á Grillinu á Hótel Sögu.

Og á Grillinu á Hótel Sögu er einnig tengt við þennan óformlega þjóðarrétt Íslendinga. Því þar má fá skemmtilegan rétt sem lesendur geta reynt að leika eftir með sínum hætti. Pylsu borna fram í vöfflu.