Rannsóknin beindist að því að kanna getu tveggja ára barna til að púsla. Þau börn sem náðu tökum á erfiðum púslum á þessum aldri þótt það væri með hjálp foreldris höfðu gott vald á erfiðum stærðfræðidæmum fimm árum síðar þegar þau voru komin í sjö ára bekk. Miðað við þessa niðurstöðu ætti að vera upplagt að setjast niður með leikskólabörnum og kenna þeim að púsla. Fyrst auðvelt púsl en síðan þyngja jafnt og þétt. Þar með gætirðu eignast stærðfræðisnilling.

Þar sem margir eru heima við um þessar mundir væri gaman að setjast niður með börnunum og púsla. Nægur tími ætti að gefast til þess. Þá er líka staðfest að börn sem eru dugleg að leika með legókubba og raða þeim saman eiga auðveldara með að leysa þrautir en þau börn sem hafa ekki áhuga á slíkum leikföngum. Öll leikföng sem ganga út á að leysa þrautir auka getu barnsins til að skilja rými og lögun hluta. Rýmisskynið er mikilvægt fyrir skilning á stærðfræði, hæð, breidd, dýpt, lengd, vegalengdum og öðrum hlutföllum.

Í verkefninu voru mæður og börn þeirra tekin upp á myndband þar sem þau léku með púsl. Móðirin mátti hjálpa barninu eins mikið og þurfa þótti. Fyrst átti að púsla mynd af bóndabæ en síðan púsl þar sem voru mjög mismunandi form, litir og lögun. Móðirin mátti segja barninu til hvernig púslstykkið átti að snúa en átti að leyfa barninu að spreyta sig sjálft á verkefninu.

Sömu börn og tóku þátt í verkefninu tveggja ára voru prófuð í stærðfræði í öðrum bekk grunnskólans. Vísindamenn fengu niðurstöður og settu þær í samhengi við hvernig börnunum gekk að púsla. Rannsóknin leiddi í ljós að börn sem fengu hjálp frá foreldrum við að raða saman púsluspili áttu auðveldara með að leysa stærðfræðiverkefni en önnur börn. Greinilegt er að foreldrar sem eru duglegir að leika með ungum börnum og kenna þeim alls kyns þrautir eru um leið að virkja talsverða færni hjá þeim er varða tilfinningu fyrir rými. Börnin læra snemma hvað er ferhyrningur, hringur eða þríhyrningur. Vísindamenn hvetja foreldra til að gefa sér tíma með börnunum í þroskaleikjum.

Nokkur ráð til foreldra

Farið í geymsluna og finnið gömul púsluspil. Það má nota iPad en það er skemmtilegra að púsla á stofuborðinu. Taktu þátt í púslinu með barninu. Hjálpaðu barninu að skilja form eins og þríhyrning, ferning, hring og þess háttar. Segðu barninu hvað þessi form heita. Styðjið barnið við að leysa verkefnið en láttu það sjálft klára dæmið. Notaðu hluti í nágrenninu til að benda á form og stærðir. Til dæmis hvernig herbergið er í laginu og hversu stórt það er. Einnig er sniðugt að sýna því umferðarmerki. Það lærir þá bæði hvað þau þýða og hvernig formið á þeim er.

Legókubbar auka hæfni barna til að skilja form og hluti.