Marentza er mikið jólabarn og nýtur þess að undirbúa og halda jólin með sínum nánustu. Eiginmaður hennar er Hörður Hilmisson og hafa þau verið gift í tæplega fimmtíu ár. Þau eiga tvö börn og fjögur barnabörn og finnst ekkert skemmtilegra en að njóta góðra samverustunda með þeim um hátíðirnar og snæða ljúffengar jólakræsingar. „Ég er alin upp af mikilli matmóður og þaðan kemur bæði áhuginn og ástríðan fyrir matargerðinni. Þetta hefur verið mitt aðaláhugamál og hef ég verið svo heppin að eiga þess kost að vinna við að búa til mat og bera hann fram,“ segir Marentza þegar hún er spurð um ástríðu sína fyrir matargerð.

Jólatónleikarnir fastur liður

Þegar kemur að desembermánuði og Marentza er spurð hvort hún skipuleggi hann í þaula segir hún að vinna taki stóran part af jólamánuðinum hjá henni. „Aðventan hjá mér er alls konar, þannig er það þegar maður rekur veitingahús, þetta er okkar vertíð. Það eru sem betur fer alltaf einhverjar hefðir sem maður vill halda í eins og til dæmis að við fjölskyldan hittumst fyrsta sunnudag í aðventu og föndrum, drekkum kakó og höfum gaman.“ Marentza segir jafnframt að hún haldi upp á aðventuna með því að fara á jólatónleika. „Jólatónleikar með Karlakór Reykjavíkur hafa verið fastur liður ár hvert. Undanfarið ár hefur reyndar ekki verið mikið um að vera á aðventunni vegna aðstæðna í samfélaginu,“ segir Marentza og þakkar fyrir að hafa fengið aðeins meira frelsi í byrjun mánaðarins.

Kaniltertan er glæsileg á borði og ekki síðri á bragðið.

Pabbi las sögur á aðfangadag

Marentza heldur í ákveðnar hefðir sem hafa fylgt henni frá bernsku. „Við höfum haldið skemmtilegt jólaboð með stórfjölskyldunni og vinum annan í jólum, það er alltaf tilhlökkun að fá að hittast og skemmta sér saman. Svo eru jú ákveðnar smákökur sem ég baka alltaf.“

Áttu þér einhverja fallega minningu sem tengist jólunum?

„Sterkasta minningin er þegar pabbi las fyrir okkur sex systkinin jólasögur á aðfangadag á meðan mamma kláraði að elda jólasteikina og koma henni á borðið. Það voru notalegar stundir,“ segir Marentza dreymin á svip.

Matarhefðir og siðir í kringum jólin eru ríkjandi hjá Marentzu. „Ég útbý alls konar mat fyrir jólin sem fer á matarborðið um miðjan jóladag. Þetta er sá dagur þar sem allir hafa það eins og þeir vilja, fjölskyldumeðlimir koma þegar þeim hentar, maturinn er á borðinu og allt bara afslappað og huggulegt,“ segir Marentza, þetta sé virkilega góð stund sem hún gæti engan veginn sleppt. Uppáhalds jólamaturinn hennar er purusteikin með heimagerðu rauðkáli og segir Marentza það tvennt vera algjörlega ómissandi um jólin. Hefðirnar hjá Marentzu hafa eitthvað breyst frá hennar bernskuárum en hún heldur enn í ákveðnar hefðir. „Heilmikið hefur breyst þó svo að ég haldi í gamlar hefðir þá fylgi ég líka tíðarandanum. Ég hef gaman af því að prófa ýmislegt nýtt og blanda jafnvel saman við gamlar hefðir. Eftir að við urðum öll fullorðin breyttist matargerðin töluvert, dagurinn fer til að mynda í það að undirbúa alls konar rétti og svo er setið lengi til borðs. Hingað til hefur purusteikin alltaf verið á borðum á aðfangadagskvöld ásamt ýmsu öðru.

Kaniltertan er ein af uppáhaldskökunum mínum og tilheyrir jólunum með sínum dásamlega ilmi. Spesíurnar eru alltaf bakaðar fyrir jólin og eru ómissandi hluti af jólaandanum á mínum heimili. Einnig er hér uppskrift að finnskum brauðum sem voru bökuð á hverju heimili í minni bernsku í Færeyjum. Loks langar mig líka að deila með lesendum uppskrift að medalíunum hennar mömmu minnar.“

Spesíur eru jólalegar og vinsælar.

Kanilterta Marentzu

fyrir 4 kökubotna í 24 cm form

250 g sykur

250 g smjör

2 egg

250 g hveiti

4 tsk. kanil.

Byrjið á því að hita bakaraofninn í 180°C. Síðan þeytið þið saman sykur og smjör þar til verður létt og ljóst, bætið einu og einu eggi í í senn og síðan þurrefninu. Smyrjið deigið þunnt í hvert tertumót, setjið inn í ofn og bakið við 180°C í um það bil 5 mínútur

Þeyttur rjómi er settur á milli botnanna og svo er gott að setja brætt súkkulaði ofan á kökuna og skreyta eftir vild.

1 desilítri af rjóma er settur í pott og hitaður upp að suðu og 150 grömm af suðusúkkulaði er sett saman við vel heitan rjómann. Hrærið í rjómablöndunni þar til súkkulaði hefur blandast vel saman við rjómann og hellið yfir kökuna.

Fallegar medalíur en Marentza fékk uppskriftina hjá móður sinni.

Medalíurnar hennar mömmu

400 g hveiti

100 g flórsykur

200 g smjör

1 egg

Hindberja- eða jarðarberjasulta

½ dl rjómi

200 g súkkulaði brætt, ég nota bleikt em mamma notaði bleikan glassúr.

Byrjið á því að setja hveiti og flórsykur í hrærivélarskálina og blandið saman. Bætið síðan smjörinu saman við ásamt egginu. Hnoðið deigið vel saman. Þegar deigið er orðið vel þétt er það sett í smjörpappír og látið standa í kæli í 30 mínútur.

Takið deigið út úr kælinum og fletjið það út á hveitistráðu borði og stingi út með þar til gerðu stungujárni eða glasi í um 3 mm þykkar kökur. Bakið kökurnar við 200°C hita í bakaraofni í 6 til 7 mínútur. Þegar kökurnar eru orðnar kaldar er helmingur þeirra hjúpaður með súkkulaðinu, hinn helmingurinn er notaður sem neðri botn. Setjið eina teskeið af sultunni í miðjuna á einum neðri botninum og sprautið þeyttum rjóma hringinn í kringum sultuna, setjið síðan súkkulaðihjúpaðan botninn ofan á þannig að úr verði samloka.

Spesíur

5 dl hveiti

1 dl sykur

2 tsk. vanillusykur

200 g smjör

Súkkulaðidropar

Allt hráefni er sett saman í hrærivélarskálina og hnoðað saman.

Takið hnoðaða deigið úr skálinni og búið til mjóar lengjur og síðan kúlur sem settar eru á bökunarpappír og súkkulaðidropunum er þrýst í miðjuna á hverri köku.

Bakið við 175°C þar til þær verða fallega ljósbrúnar.

Finnsk jólabrauð

200 g smjör

250 g hveiti

50 g sykur

Ofan á hverja köku

1 egg

1 msk. kalt vatn

1 msk. gróft saxaðar möndlur

50 g perlusykur

15 g lakkrísduft

Skerið smjörið í teninga og setjið það saman við hveitið og sykurinn í hrærivélarskálinni og hnoðið saman. Takið hnoðaða deigið og búið til þykka rúllu og pakkið í smjörpappír og setjið síðan í kæli í um það bil 30 mínútur.

Takið deigið út úr kælinum og búið til fingurþykkar lengjur og skerið þær í 2 til 3 sentimetra stykki og raðið á plötu klædda smjörpappír. Penslið hvert stykki með eggjablöndunni og stráið söxuðu möndlunum, perlusykrinum og lakkrísduftinu ofan á hvert stykki og bakið við 200°C í 8 til 10 mínútur.