Frum­leg getnaðar­vörn fyrir karla vann þýsku Dy­son hönnunar­verð­launin á dögunum. Hönnunin er eins­konar bað fyrir eistun sem notar vatn og hljóð­bylgjur með hárri tíðni til að skerða hreyfi­getu sáð­frumnanna og þannig koma í veg fyrir þungun.

Tækið er ætlað til heima­notkunar á tveggja mánaða fresti og er hormóna­laust, aftur­kræft og auð­velt í notkun. Fyrsta notkun þarf að vera stýrð af lækni og tekur það um tvær vikur að ná fullri virkni í fyrsta sinn. Virknin endist í mesta lagi í sex mánuði. Tækið er enn í þróun og rann­sóknir á mönnum er ekki hafin.

Að­ferðin er ekki ný af nálinni, sam­kvæmt grein IFLScience en árið 1977 var skoðaður mögu­leikinn á því að nota há­tíðni­bylgjur til að bæla niður sáð­frumur hjá köttum, hundum, öpum og mönnum. Sú rann­sókn á­lyktaði að með­ferðin virkaði til að bæla niður sáð­frumur án auka­verkanna.

Mikill skortur á getnaðar­vörnum fyrir karla

Rebec­ca Weiss, hönnuður vörunnar sem kallast Coso, segist hafa greinst með frumu­breytingar í leg­hálsi í kjöl­far notkunar á getnaðar­varnar­pillunni. „Eftir það voru hormóna­getnaðar­varnir ekki lengur í boði fyrir mig,“ segir Weiss.

Fljót­lega varð henni og kærastanum hennar ljóst að mikill skortur væri á getnaðar­vörnum fyrir karla á markaðnum. Hún vann að tækinu í meistara­námi sínu í hönnun við München há­skóla og vann með ungum mönnum til að finna hönnun sem hentaði þeim sem best.

Karlar geta sem stendur að­eins valið milli þess að nota smokka eða fara í ó­frjó­semis­að­gerð, þrátt fyrir að þetta sé langt frá því að vera fyrsta til­raunin til að kynna getnaðar­varnir fyrir karla.

Þróun stoppar gjarnan þar sem talið er ó­lík­legt að karlar sætti sig við á­kveðnar auka­verkanir eða reglu­legar með­ferðir, fylgi­kvilla sem konur hafa lengi þurft að glíma við í getnaðar­vörnum. En margir karlar hafa þó kallað eftir auknum mögu­leikum á markaðnum.

Hönnunin keppir nú meðal sigur­vegurum ní­tján annara þjóða fyrir al­þjóð­legu Dy­son verð­launin sem kynnt verða í nóvember.