Liverpool varð Englandsmeistari í knattspyrnu í fyrsta sinn í þrjátíu ár á fimmtudagskvöld og Þráinn Ævarsson hjá Stáliðjunni ætlar að bregðast við langþráðum titlinum með því að láta bæta 2020 við Liverpool-merkið sem skorið er úr tveggja millimetra stálplötum hjá fyrirtæki hans. Þá útilokar hann ekki tímabundna fjöldaframleiðslu.

„Það var ákveðið að ef við yrðum meistarar þá yrði farið í það að bæta 2020 undir þetta skilti og við byrjum greinilega á því núna eftir helgi,“ segir Þráinn sem ákvað að stíga varlega til jarðar þrátt fyrir gott útlit.

„Við þorðum náttúrlega að sjálfsögðu ekki að gera það fyrr og okkur var snarlega bannað að fara að „jinxa“ þetta eitthvað með því að byrja strax. En núna verða skorin út nokkur svona. Hundrað stykki eða eitthvað,“ segir Þráinn sem reiknar með aukinni eftirspurn sem þó hafði þegar tekið kipp eftir að útvarpsmaðurinn Gulli Helga setti mynd af skiltinu sínu á Instagram í síðustu viku.

Þráinn í Stáliðjunni byrjaði á að gera United skilti en hefur lang mest að gera í kringum Liverpool.

Töff á vegg

„Þetta er búið að vera að spyrjast ágætlega út núna upp á síðkastið og jú, jú, það kom sko svo sannarlega smá „boost“ frá honum Gulla,“ segir Þráinn.

„Ég setti þetta bara inn á Instagramið hjá mér og er svo eiginlega ekki búinn að gera annað en að svara fólki hvar er hægt að fá þetta,“ segir Gulli og bætir við að stálskorið Liverpool-merkið sé verulega töff þegar það er komið upp á vegg.

„Þetta er nú ekki mjög flókið sko. Þetta er fyrirtæki sem pabbi heitinn átti og ég var staddur þarna þegar ég sá að þeir voru byrjaðir að skera þetta úr járni og ég fékk eitt merkið hjá þeim,“ segir Gulli um skiltið sitt sem hann segist bara hengja upp á vegg þegar það er leikur. „En þetta er ógeðslega flott og sýnir það bara hversu áhuginn á boltanum er mikill.“

„Þetta er úr tveggja millimetra stáli og er svo sem engin hrikaleg léttvara en það er ekkert vandamál að setja þetta upp á vegg eða neitt þannig. Það er bara einn nagli,“ segir Þráinn. „Og ef út í það er farið getum við gert þetta í öllum stærðum,“ segir Þráinn sem hóf þessa framleiðslu fyrir hálfgerða tilviljun.

Gulli Helga er hress með skiltið sitt sem far bara upp á vegg á leikdögum.

Púllararnir heitastir

„Þetta byrjaði eiginlega bara um jólin þegar ég gerði Manchester United skilti í jólagjöf handa vini mínum. Þegar lítið er að gera í skurðarvélinni setjum við plötu í og byrjum að skera og setjum þetta saman. Þetta er bara fín aukabúgrein með smíðinni,“ segir Þráinn sem hefur auk Liverpool og United til dæmis gert merki Arsenal og er með KR-merkið í vinnslu.

Þótt Þráinn sé ekki bundinn við Liverpool breytir það engu um að eftirspurnin er mest frá stuðningsfólki þess. „Þetta eru langmest Púllararnir enda eru þeir mestu geðsjúklingarnir á landinu. Þeir eru bara heitustu fótboltaaðdáendurnir og lifa sig einhvern veginn meira inn í þetta.“