Vitanlega höfðu karlmenn á internetinu eitthvað að segja um klæðnaðinn. Þeir voru með vægðarlausar aðfinnslur um leikkonuna fyrir að bera brjóstin fyrir almenningi og gerðu óvægnar athugasemdir við útlit hennar, gerðu grín að líkama hennar og stærð brjósta hennar.

Pugh lét þessa meðferð síður en svo yfir sig ganga og birti einstaklega gott og vel orðað svar á Instagram, þar sem hún sýndi internettröllunum hvar Davíð keypti ölið, eitthvað sem samfélagsmiðlar mættu einnig kynna sér, og spurði: „Af hverju eruð þið svona hrædd við brjóst?“

Þetta er ekki í fyrsta sinn og alls ekki í síðasta sinn sem kona fær að heyra það frá hópi ókunnugra hvað sé að líkama hennar, áhyggjuefnið er helst það hversu orðljótir sumir af ykkur karlmönnunum getið verið.

Færslan í heild sinni

„Heyrið nú! Ég vissi að ég kæmist ekki hjá því að vekja umtal ef ég klæddist þessum dásamlega Valentino-kjól. Hvort sem það yrði jákvætt eða neikvætt, við vissum öll hvað við vorum að gera. Ég var spennt að vera í kjólnum og var ekki vitund stressuð. Hvorki áður, á meðan né núna eftir á.

Það hefur verið áhugavert að verða vitni að því hversu auðvelt það er fyrir karlmenn að gjörsamlega eyðileggja líkama konu, opinberlega, af stolti og fyrir allra augum. Þið gerið það jafnvel undir nafni með starfstitil ykkar og vinnupóstinn í persónulýsingunni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn og alls ekki í síðasta sinn sem kona fær að heyra það frá hópi ókunnugra hvað sé að líkama hennar, áhyggjuefnið er helst það hversu orðljótir sumir af ykkur karlmönnunum getið verið.

Sem betur fer hef ég sætt mig við þá hluta líkama míns sem gera mig að mér. Ég er ánægð með alla „gallana“ sem ég afbar ekki þegar ég var fjórtán ára. Mörg ykkar eru svo ólm í að ég viti hve vonsvikin þið eruð vegna „pínubrjóstanna“ minna, eða viljið að ég blygðist mín fyrir að vera svona „flatbrjósta“. Ég hef verið í líkama mínum í langan tíma. Ég er fullkomlega meðvituð um brjóstastærð mína og hræðist hana ekki.

Það sem vekur svo enn meiri áhyggjur er … Af hverju óttist þið brjóst svo? Lítil? Stór? Vinstra? Hægra? Bara eitt? Kannski engin? Hvað. Er. Svona. Ógnvænlegt?

Það fær mig til að velta fyrir mér hvað gerðist eiginlega fyrir ykkur sem gerir ykkur kleift að hafa svo hátt um það hversu ósátt þið eruð við stærð brjósta minna og líkama …? Ég er mjög þakklát fyrir að hafa alist upp á heimili með sterkum, öflugum og bústnum konum. Við vorum alin upp til að finna styrk í fellingum líkama okkar. Til að láta í okkur heyra ef okkur var ekki sama. Það hefur alltaf verið mitt markmið í þessum iðnaði að segja „til fjandans með þetta og hitt“ þegar einhver ætlast til þess að líkami minn taki á sig mynd þess sem talið er vera heitt eða kynferðislega aðlaðandi.

Ég klæddist þessum kjól því ég vissi. Ef það er svona auðvelt fyrir ykkur að hrakyrða konur opinberlega núna árið 2022, þá eruð það þið sem hafið ekki meðtekið skilaboðin. Þroskastu. Berðu virðingu fyrir fólki. Berðu virðingu fyrir líkömum. Berðu virðingu fyrir öllum konum. Berðu virðingu fyrir mannkyninu.

Lífið mun verða mun auðveldara, ég lofa. Og allt þetta út af tveimur litlum og sætum geirvörtum …

Ó! Og síðasta sneiðin er til þeirra sem liði betur ef þessi tomma af dökku skinni væri hulin ... #fokkingfrelsumfokkinggeirvörtuna“.