Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, segist vart hafa undan að svara fyrirspurnum um matarvagn sem hann auglýsir til sölu á Marketplace á Facebook. Þar kemur fram að skemmtilegur og nettur vagninn veki mikla athygli og hafi verið notaður til að selja pylsur, samlokur og súpur.

Ásett verð er 990.000 krónur en vagninum fylgja meðal annars pylsupottur, stórt samlokugrill og ísskápur þannig að í honum er fólgið tilvalið tækifæri til að taka þátt í „stækkandi og spennandi matarvagnamenningu“.

En hvað er prófessor í stjórnmálafræði að vilja upp á dekk með matarvagn? Þarna hlýtur einhver saga að liggja að baki?

„Hún er nú ekki mikil,“ segir Baldur og hlær. „Það er nú einfaldlega þannig að við fjölskyldan erum með lítið ferðaþjónustufyrirtæki sem heitir Hellarnir við Hellu,“ heldur Baldur áfram og bætir við að vagninn hafi verið keyptur þegar fjölskyldan opnaði fyrir almennar hellaskoðunarferðir 2020. „Við vinnum mjög stíft með hellakonseptið og köllum hann Mathelli.“

Fjöldi svangra gesta

Hellarnir við Hellu opnuðu fyrir fastar ferðir um manngerðu hellana tólf sem þar eru í febrúar 2020, nákvæmlega tveimur vikum áður en Covid skall á af fullum þunga og skrúfað var fyrir straum erlendra ferðamanna. Baldur segir þau því ekki hafa átt von á neinum gestum það sumarið en þau systkinin stóðu þarna um hvítasunnuhelgina í byrjun júní þegar 700 manns komu að skoða hellana.

Stór lúga er framan á vagninum sem opnast út og afgreitt er í gegnum snyrtilegt plexigler. Upphengjanleg hilla er sett þar fyrir utan. Allir listar og slíkt utan á vagninum er úr ryðfríu en vagninn er galvaniseraður.
Mynd/aðsend

„Það stóðu bara hundruð manns á planinu hjá okkur og heimtuðu bara að fá eitthvað að borða og við urðum að fá okkur matarvagn,“ segir Baldur og hlær og vitnar síðan í systur sína. „Eins og hún segir þá vorum við þarna um hvítasunnuna og komumst ekki heim fyrr en um haustið. Við gerðum bara ekki ráð fyrir öllum þessum Íslendingum sem væru á ferðinni og vildu koma að skoða hellana.“

Þykkvabæjarkartöflusúpa

Baldur segir hins vegar að nú skilji leiðir með matarvagninum þar sem öll veitingasala sé komin inn í móttökuna eftir breytingar. „Þess vegna erum við að selja matarvagninn. Veitingarnar eru komnar inn. Og þetta er sagan.“

Baldur og fjölskylda hans hafa fóðrað hellaskoðara í Mathellinum en nú skilja leiðir.
Mynd/aðsend

Baldur lætur þess einnig getið í auglýsingunni að þar sem vagninn vegur um 300 kíló sé hann ekki skráningarskyldur og auðvelt sé að koma honum fyrir á útihátíðum, afmælum eða öðrum viðburðum vegna stærðar og lítillar þyngdar.

„Þetta er nettur vagn og allt mögulegt. Samlokur, pylsur, súpur og ís. Við erum svo gamaldags að við reynum að vinna sem mest með allt úr heimabyggð og buðum upp á þessa alveg indælis kartöflusúpu úr Þykkvabænum ásamt ýmsu öðru góðgæti.“

Rafmagnið í vagninum er 1. fasa og Baldur segir þau hafa getað knúið pylsupott, búðarkassa, brauðgrill og ísskáp á sama tíma ef stungið var í samband við 16. ampera öryggi.
Mynd/Aðsend

Vagninn stendur enn hjá Hellunum við Hellu þar sem hann bíður nýs eiganda en Baldur rekur mikinn áhugann á vagninum til ört vaxandi matarvagnamenningar á Íslandi. „Hann er enn óseldur en ég er bara í því að svara skilaboðum núna. Það er bara skemmtilegt og ég fæ margar fyrirspurnir, bæði frá fólki sem er með vagna fyrir en það er líka margt fólk að spyrja sem er að velta fyrir sér að fá sér vagn í fyrsta skipti,“ segir Baldur, sem svarar fyrirspurnum í síma og einkaskilaboðum á Facebook.