Logi Þorvaldsson hefur unnið við kvikmyndaframleiðslu undanfarin sjö ár, þar af fjögur síðustu árin erlendis. Í dag býr hann og starfar í London. „Ég vann lengi við kvikmyndaframleiðslu á Íslandi þangað til mér var boðið verkefni hjá Universal Pictures hér í London. Tveimur vikum síðar var ég búinn að losa mig við allar mínar eigur, fluttur til Austur-London og mætti í stúdíóin. Síminn hefur ekki stoppað síðan. Seinna meir stefni ég á að flytja til New York og starfa þar sem framleiðandi.“

Tískuáhugi Loga kviknaði á menntaskólaárum hans og hér sýnir hann okkur inn í fataskápinn og svarar nokkrum spurningum.

Vintage toppur sem hann saumaði sjálfur, vintage Moschino buxur, antík skór frá gömlum manni og Viðja jewelry hálsmen.

Spurt og svarað:

Hvernig hefur tískuáhugi þinn þróast undanfarin ár?

Hann er alltaf að þróast og breytast. Áhuginn kviknaði í menntaskóla en það tók sinn tíma að finna minn eigin stíl. Ég reyni að hafa opinn huga og prufa mig áfram með áhugaverðar samsetningar. Í augnablikinu er ég að reyna að losa mig við allt svart úr fataskápnum og vinna meira með liti og ljósa tóna. Ég er einnig byrjaður að sauma mikið úr notuðum fötum og breyti þeim í glænýjar einstakar flíkur.

Hvernig fylgist þú með tískunni?

Langmest á Instagram. Annars fylgist ég mikið með fólki úti á götu og í kringum mig. Mér finnst fallegt og áhugavert að sjá hvernig fólk tjáir sig með fatnaði. Það er til dæmis hægt að segja mikið um manneskju bara með því að skoða skó viðkomandi.

Hvar kaupir þú helst fötin þín?

Að kaupa föt er heilög athöfn. Ég get til dæmis ekki keypt föt á netinu því ég verð að máta og snerta flíkurnar. Ég kaupi nær allan fatnað notaðan og eyði miklum tíma í að gramsa í slíkum verslunum.

Hvernig er tískuborgin London?

Líklegast fjölbreyttasta borg í heimi þegar kemur að tísku.

Vintage leðurjakki frá manni sem selur föt úti á götu í London, Maison Margiela toppur, vintage buxur úr góðgerðarverslun og Prada skór.

Hvaða litir eru í uppáhaldi?

Í augnablikinu er ég mikið að vinna með brúna og ljósa liti. Ég er hægt og rólega að safna í litríkan fataskáp.

Áttu minningar um gömul tískuslys?

Allt of margar og vona að þær verði fleiri.

Hvaða þekkti einstaklingur er svalur þegar kemur að tísku?

Allir sem ná að leika sér með það óhefðbundna og þora að prófa sig áfram. Af Íslendingum er það helst fatahönnuðurinn Sólveig Hansdóttir. Hvernig hún leikur sér með samsetningar á fatnaði er aðdáunarvert.

Hvaða flík hefur þú átt lengst og notar enn?

Hvíta spariskyrtu sem ég stal frá pabba mínum einhver jólin. Hún er uppáhaldsskyrtan mín.

Vintage jakki, toppurinn er föðurland sem hann stal frá vinkonu sinni, vintage rúskinnsbuxur og hælaskór úr Rauða krossinum.

Áttu uppáhaldsverslanir?

Hér í London fer ég oft í góðgerðarverslanir sem selja notaðan fatnað (e. charity shops) en þær jafnast ekkert á við Rauðakrossbúðirnar heima á Íslandi sem eru einstakar í sinni röð. Helstu uppáhaldsverslanir mínar í London eru Seratonin og Nordic Poetry.

Áttu eina uppáhaldsflík?

Það er þunnur langerma Maison Margiela bolur sem ég fékk í partíi í New York. Ég skipti á honum og jakkanum sem ég mætti í og nota hann nánast daglega.

Bestu og verstu fatakaupin?

Verstu voru líklegast jakki úr Kormáki og Skildi sem ég keypti þegar ég var 18 ára. Ég eyddi miklum peningum í þennan meðalflotta tvídjakka sem passaði ekki á mig. Á þessum tíma var ég með einhverja dellu fyrir Kormáki og Skildi. Ég hef aldrei notað þennan jakka en á hann samt enn.“

Bestu kaupin voru rauðar 70’s útvíðar buxur sem ég fann í Samhjálp á 500 krónur. Ég fæ aldrei jafnmikið hrós og þegar ég klæðist þeim.

Notar þú fylgihluti?

Þeir ramma inn heildarmyndina. Ég er alltaf með skart, fullt af hringum og nokkur hálsmen. Einnig er ég mikill aðdáandi sólgleraugna og klúta. Nýlega datt ég inn í töskur og er þessa dagana að leita að fullkomna veskinu.

Eyðir þú miklum peningum í föt miðað við jafnaldra þína?

Nei, ég er frekar sparsamur þegar kemur að því að kaupa föt. Ég kaupi nær aldrei ný föt heldur yfirleitt notuð föt og gef um leið flíkur til baka. Ef ég kaupi dýra flík væri það helst einhver einstök notuð flík sem ég veit að ég mun nota lengi eða jafnvel góðir skór, þeir ná mér oftast.